Úr viðtali við Guðmund Sören: - Karlinn á kassanum og Passíusálmarnir
Karlinn á kassanum, Sigurður Sveinbjörnsson (1875-1967), trúboði frá Giljum í Hálsasveit, var þekktur maður í Reykjavík á sinni tíð, fyrir dómsdagsprédikanir sínar á Lækjartorgi, en hann hafði þann sið að stíga upp á kassa, sem hann hafði meðferðis, þegar hann þrumaði yfir lýðnum og fékk hann af því viðurnefnið “Karlinn á kassanum”. Sigurður fór til Kanada 1910 og dvaldi þar til 1927-1928, er hann kom aftur til Íslands (Borgfirskar æviskrár).
Hann kom í heimsókn í Keldudal um sumartíma og var þá í bóksöluferð. Var hann meðal annars með Passíusálmana til sölu. Það endaði nú með því að ég keypti af honum eitt eintak af þeim og á það enn. Hann var ekki með prédikunarkassann þá, en bækurnar hafði hann í tösku sem hann bar á bakinu. Hann gisti á einhverjum bænum í Keldudal, líklega hjá Þórarni Vagnssyni í Húsi.
Ég vissi það, að á Arnarnúpi voru Passíusálmarnir lesnir og sungnir, viðeigandi sálmur á hverju kvöldi alla föstuna og fór það fram í vökulokin, þegar allir voru komnir inn úr verkum. Ég hef grun um að fyrst hafi verið lesin einhver hugvekja og síðan viðeigandi sálmur sunginn. Þórarinn í Húsi las stöku sinnum húslestur úr Vídalínspostillu, en ég veit ekki hvort það var á hverjum sunnudegi.
(Mannlíf og saga 7. hefti)