A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
06.12.2013 - 06:22 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Upphlaupið í Efstaleiti

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 2 »
Öll fyrirtæki standa og falla með starfsfólkinu. Það á auðvitað ekki síst við um Ríkisútvarpið okkar. Stofnun sem byggir á þjóðararfinum. Hinir miklu útvarpsmenn stóðu vaktina hvað sem á dundi: Stefán Jónsson, Jón Múli, Pétur Pétursson, Svavar Gests, Guðmundur Jónsson, Helgi Hjörvar, Thorolf Smith, Jónas Jónasson. Svo örfáir séu nefndir. En það voru ekki bara þeir. Hinir minni spámenn fylla einnig upp í myndina. Og skúringakonurnar. Og Nonni sendisveinn.

Skyldu það vera margar þjóðir sem eiga annan eins gullmola og Rás 1 eða Gömlu gufuna sem sumir kalla? Það er mikið vafamál. En hana verðum við að varðveita hvað sem tautar og raular. Þar liggur við þjóðarsómi. Gamla gufan er ekkert annað en háskóli alþýðunnar. Þar eru til dæmis slík dýrmæti í segulbandasafninu að nota ætti sem skyldunámsgrein í háskólum landsins. Það á einnig við um myndasafn sjónvarpsins. Unga fólkið hefði svo sannarlega gott af því að hlusta markvisst á gengnar kynslóðir og læra af þeim. Þar er lífsviska íslensku þjóðarinnar í hnotskurn og mætti meta til eininga eins og kallast í dag. Láta þau svo hreinlega taka próf í slíkum vísindum. Það gæti verið liður í því að þjóðin finni sjálfa sig.

Það er ekkert við það að athuga að opinber fyrirtæki dragi saman seglin. Það á jafnt við um Ríkisútvarpið og aðrar stofnanir. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Það er þjóðarnauðsyn og á við á öllum tímum. En það verður að gerast markvisst og án upphlaupa. Ef starfsfólk á í hlut, þegar nauðsyn knýr til samdráttar, þá skal aðgát höfð í nærveru sálar. Með fullri virðingu fyrir þeim sem í hlut eiga. Og dramatískar niðurfellingar á dagskrárliðum koma fólki í opna skjöldu. Slíkt þarf að vanda vel.

Fimm milljarða stofnun hlýtur að skoða vel til allra átta. Þarf til dæmis ekki að athuga betur þann gífurlega efnisvaðal sem viðgengst í ríkissjónvarpinu? Snikka hann svolítið til? Spara innkaup á drasli. Til hvers og fyrir hvern er það að reka myndbandaleigu? Með þessu líka stórkostlega efni, eða hitt þó heldur. Sum kvöld er stranglega varað við að myndir á besta útsendingartíma séu bannaðar börnum. Bannað börnum og stranglega bannað börnum. Þetta eru fastir liðir í kynningum. Hverjir ætli horfi mest á slíkt efni? Hverjir bera mestan skaða af því? Og stundum er verið að sýna gamanmyndir og jafnvel fjölskyldumyndir um miðnættið! Allir vita að sjónvarpið er gífurlega áhrifamikill miðill. Og það er margt gott í íslenska ríkissjónvarpinu. Sumt frábært. En einhversstaðar hlýtur lítil þjóð að setja mörkin.

Slík uppákoma og nú hefur orðið hjá RÚV er öllum til skammar sem þar koma að verki. Að afhenda mönnum uppsagnarbréf og reka þá samdægurs eins og fregnir herma. Fáheyrður klaufaskapur og virðingarleysi við mannlega reisn ef rétt er. Ætla mætti að hér sé um stórglæpona að ræða sem taka verði föstum tökum. Hvers á þetta fólk að gjalda?

Eftir Hallgrím Sveinsson og Bjarna Georg Einarsson
Hallgrímur er bókaútgefandi og léttadrengur á Brekku í Dýrafirði og Bjarni er fyrrverandi útgerðarstjóri og núverandi ellilífeyrisþegi á Þingeyri.



« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31