Upp með smáfyrirtækin á Íslandi!
Fjöldi þjóða hefur af því margfalda reynslu að gifta þeirra og farsæld í atvinnumálum er hjá litlu fyrirtækjunum. Aftur á móti er svo hinn sífelldi misskilningur okkar Íslendinga að allt eigi að vera svo stórt og mikið. Þá er líka fallið þess meira þegar illa fer.
Sumir okkar hér fyrir vestan eru mjög einfaldir menn. Enda er skoðun okkar mjög einföld á atvinnurekstri: Það á að gera allt sem hægt er til að treysta undirstöður smáfyrirtækjanna í landinu. Og gera mönnum kleyft að stofnsetja ný sprotafyrirtæki og tryggja þannig atvinnuna.
Hér er verið að tala um fyrirtæki sem veita allt frá einum manni upp í til dæmis 50 manns atvinnu. Og eitt er borðleggjandi: Ríkissjóður og sveitarfélög fá strax miklar tekjur af slíkum smáfyrirtækjum með virðisaukaskatti og öðrum gjöldum.
Fjármunirnir eru til. Það sem íslenska þjóðin þarf nú sárlega á að halda er kjarkur og þor til að veita þeim í rétta farvegi. Sá farvegur liggur til smáfyrirtækjanna. Og þau standa oftast í skilum segja þeir sem vit hafa á.
Hallgrímur Sveinsson og Bjarni G. Einarsson