Tillögur Pírata í sjávarútvegsmálum
Nýútkomnar tillögur Pírata í sjávarútvegsmálum eru fagnaðarefni öllum þeim sem trúa á frjálsan markaðsbúskap en vilja jafnframt tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir eigin auðlindum. Þessar tillögur eru í takti við auðlindaákvæði stjórnlagaráðs, sem aftekur allan vafa á forræði sjávarauðlindarinnar og að hún skuli nýtt á jafnræðisgrundvelli okkar allra. Í tillögum sínum gera Píratar ráð fyrir að bjóða upp allar aflaheimildir til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð. Í dag er leiguverð á fiski ákveðið einhliða á lokuðum markaði sem stórútgerðir og bankar stjórna og greiða leigutakar í leigu fjóra af hverjum fimm fiskum sem þeir veiða. Af því rennur einn sporður til ríkisins, afgangurinn fer til stórútgerða og banka.
Væntanlega fagna þessir aðilar ekki tillögum Pírata en er það aðalmálið til lengri tíma litið?
Er hætta á samráði?
Uppboð veiðiheimilda fyrir alla Íslendinga vekur upp margar spurningar. Er þetta einungis fyrir þá efnameiri? Ef gjaldið fyrir veiðileyfið yrði innheimt um leið og aflanum yrði landað þarf enginn að hafa áhyggjur af fyrirframgreiðslu og bankaláni, sem þýðir að efnaminni veiðiklær geta líka verið með.
Er hætta á samráði? Samráðshætta er ætíð fyrir hendi, olíufélögin eru augljóst dæmi. En þau eru aðeins fjögur. Erfitt er að sjá slíkt fyrir sér ef þau væru 40, hvað þá 400. Þetta er því frekar langsótt.
Safnast veiðileyfin á eitt landshorn? Án varnaraðgerða jú, en með sérstakri útfærslu uppboða sem tryggir landshlutum ákveðið hlutfall veiðileyfa halda allir sínu.
Er hætta á að fáir aðilar yfirbjóði alla hina og veiðileyfin safnist þannig á fárra hendur? Yfirboðshætta er vissulega til staðar en því til varnar er hægt að setja þak á veiðileyfamagn sömu útgerðar, útfæra uppboðin eftir útgerðarflokkum og hafa uppboðsmarkaðinn „lifandi“ sem þýðir að í staðinn fyrir að bjóða ársskammtinn allan út á einu bretti væri hægt að gera það í smærri skömmtum og til mismunandi langs tíma, allt eftir hentisemi hvers og eins. Þetta myndi vinna mjög á móti samþjöppun veiðileyfa og þegar við bætist að leigutakar þurfa að veiða sjálfir sinn skammt er ávinningurinn af því að „safna“ veiðileyfum enginn.
Að rjúfa fyrirsjáanleikann
Veldur þetta óvissu og litlum fyrirsjáanleika? Almennt uppboð á almannagæðum eins og veiðileyfum er ekki bara leið til að samhæfa verðlagningu veiðileyfa almennum markaðslögmálum heldur líka mannréttindamál. Tilgangurinn með því að bjóða upp aflaheimildir á opnum markaði er einmitt sá að rjúfa þann fyrirsjáanleika sem ríkt hefur í sjávarútvegi og fáir njóta. Almennt uppboð mun þannig færa sjávarútveginn nær öðrum atvinnugreinum og hann þarf að sæta sömu óvissu og almennt gerist á frjálsum markaði. Þetta hefur hingað til einmitt talist hvati atvinnulífsins og hvers vegna ætti annað að gilda um sjávarútveg?
Veldur þetta hruni atvinnugreinarinnar?
Allt fram á þennan dag hafa þeir sem njóta forgengis á veiðileyfum (kvóta) barmað sér yfir kerfisbreytingum og sagt þær ganga af sjávarútvegi dauðum. Sé litið á hagnað stórútgerðarinnar getur hver dæmt fyrir sig. Vert er að benda á að verðmætin sjálf, fiskurinn í sjónum, munu ekki hverfa úr netum landsmanna þótt kerfisbreytingar verði í landi. Þetta er því ekki spurning um hvort fiskurinn verði veiddur heldur af hverjum. Ég hvet útgerðarmenn til að þakka fyrir áralangt forgengi að fiskimiðunum og lýsa sig reiðubúna að taka þátt í almennu markaðstorgi aflaheimilda ásamt öðrum landsmönnum.
Pírötum óska ég velfarnaðar í að fylgja tillögum sínum eftir.
Lýður Árnason
Hann er læknir og vaktsjóri Lýðræðisvaktarinnar.
Fréttablaðið mánudagurinn 1. september 2015.