A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
20.12.2010 - 11:53 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Tillaga að afmælisgjöf til Jóns Sigurðssonar

Bjarni Georg Einarsson
Bjarni Georg Einarsson
« 1 af 2 »
Eins og alþjóð veit, eru Íslendingar einhver spilltasta þjóð á jarðríki. Einn liður í þeirri spillingu er misnotkun á fjármunum hins opinbera og er nánast daglega í fréttum. Spurning er hvort það sé bara toppurinn á þeim ísjaka. Auðvelt ætti að vera að ganga úr skugga um það með einu pennastriki, nútíma tækni og beinni þátttöku almennings í landinu.

Sú hugmynd hefur skotið upp kollinum hér fyrir vestan að beina því til ríkisstjórnarinnar, að hún fyrirskipi öllum forstöðumönnum opinberra stofnana að birta á vefsíðum þeirra einu sinni í mánuði alla kostnaðarreikninga sem stofnað hefur verið til mánuðinn á undan. Og hverjir það eru sem fá þær greiðslur. Þetta á að sjálfsögðu einnig við öll laun og sporslur sem verið er að greiða hinum og þessum. Nefna má greiðslur til ríkisstarfsmanna fyrir að starfa í nefndum í vinnutíma sínum, dagpeninga, ferðakostnað, þar með taldar utanlandsferðir, kostnað við sendiráð, símakostnað og svo framvegis. Hér er auðvitað einnig átt við ráðuneytin sjálf og þá sem þeim stjórna. Og ekkert undan dregið! Ekkert. Allir sómakærir forstöðumenn munu fagna þessu aðhaldi, að ekki sé talað um Ríkisendurskoðun. Grunur okkar er sá að ef þessi háttur væri tekinn upp, mundi sjálftökuliðið hugsa sig tvisvar um og sparnaður yrði ómældur. Þetta er sára einfalt í framkvæmd og getur hvaða unglingur sem er framkvæmt ef út í það er farið.

Sumir sérfræðingar munu að sjálfsögðu hlægja þessa tillögu út af borðinu og finna henni allt til foráttu, en það er einmitt hættumerkið. Alþýða manna getur nokkurn veginn treyst því að þegar sérfræðingarnir hlægja eða brosa út í annað, þá eru menn í mjög mörgum tilfellum einmitt á réttri leið. Það er öllum til góðs að ekki sé verið að fela neitt í stjórnsýslunni. Margir segja að þar eigi allt að vera opið og gegnsætt. En eiga það bara að vera merkingarlaus orð til gamans?
Upplýsingalög eru ágæt sem slík, en með því fyrirkomulagi sem hér er reifað getur alþýða manna fylgst með jafnóðum og hlutirnir gerast og þeir sem til þekkja lagt fram fyrirspurnir og athugasemdir ef þurfa þykir. Þetta mætti vel kalla sjálfbæra endurskoðun. Löngu er kominn tími til að hætta endalausum feluleik með opinbera fjármuni. Allt upp á borðið! Allt. Fyrr verður engin sátt með þjóðinni.

Jón forseti ráðlagði alþýðu á sínum tíma að hafa gætur á fulltrúum sínum og skapa alþýðlegt álit á málunum. Það á enn frekar við í dag. Það kemur ekkert í stað hugrekkis einstaklinganna og að þeir skipti sér af hlutunum. Sagan er óljúgfróð í þeim efnum. Og hér þarf enga skýrslu að útbúa. Við höfum til þessa verks öll tæki og tól. Vilji er allt sem þarf eins og fyrri daginn.

Það færi vel á því að gefa Jóni Sigurðssyni þessa afmælisgjöf. Fleiri slíkar gætu komið á eftir. Ef við hefðum vit á að senda spillingu og bruðl út á sextugt djúp, yrði gamli maðurinn örugglega ánægður. Það væri í samræmi við allt hans lífsstarf.

 

 

Hallgrímur Sveinsson

Bjarni Georg Einarsson

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31