A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
08.08.2016 - 19:25 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson

Til umræðu í komandi kosningabaráttu: - 2. grein - Aldingarðurinn Vestfirðir

Lagðprúðar vestfirskar ær raða sér á garðann. Ljósm. H. S.
Lagðprúðar vestfirskar ær raða sér á garðann. Ljósm. H. S.
« 1 af 3 »

Ekki verður annað sagt en Vestfirðir séu einn samfelldur aldingarður til sjós og lands. Fyrir ströndum eru einhver gjöfulustu fiskimið sem þekkjast. Þar eru sauðfjárhagar betri en víða annars staðar í heimi hér. Og vestfirsk náttúra er sér á báti ásamt Vestfirðingum sjálfum. Hér er allt sem mannskepnan þarf á að halda. Þetta vita margir. Samt er eitthvað að.

Fiskurinn í sjónum

   Sum „krummaskuðin“á Vestfjörðum bíða nú örlaga sinna. Þar fækkar fólki, fækkar og fækkar meðal annars vegna þess ómannlega kerfis sem við höfum komið okkur upp en þurfum lífsnauðsynlega að breyta. Sveitarfélögin eru varnarlaus heyrðist nýlega fyrir sunnan. Almannarómur segir skynsamlegast að heimamenn fái að róa til fiskjar með vistvænum veiðarfærum, fiskinum landað heima og unninn þar og hvergi annarsstaðar. En svo kemur þversögnin sem sjaldan er nefnd: Um helmingur starfsfólks í vestfirskum frystihúsum er útlendingar.  Einar Gunnar Einarsson, sýslufulltrúi á Ísafirði, sem margir muna enn, sagði eitt sinn að gamni sínu: „Á Þingeyri vinna menn í fiski, éta fisk og tala um fisk.“ En öllu gamni fylgir nokkur alvara. Þetta bar auðvitað vott um einhæfni, en samt var þetta grundvöllurinn. Hann er enn fyrir hendi: Hafnarmannvirki, vinnsluhús með fiskvinnslusérfræðingum og eitthvað er enn eftir af sjómönnum. Og fiskurinn syndir upp í kálgarða!

 

Fiskeldið

 

Fiskeldi er nú komið á fullt í fjörðunum hér vestra og eru þar margir um hituna. Vonandi er þar eitthvað á ferð sem vit er í. En reynslan segir okkur að fiskeldi Íslendinga, bæði á sjó og landi, sé ein hörmungar-og raunasaga. Og meðal annarra orða: Hverjir fjármagna þá miklu aukningu í fiskeldi sem virðist framundan hér vestra? Og hvert fer arðurinn af þeirri starfsemi?

 

Sauðkindin 

   Þótt ótrúlegt sé, mun sauðfjárbúskapur sennilega heyra sögunni til innan skamms á Vestfjörðum, nema kannski á örfáum jörðum. Þó vita ýmsir að Vestfirðingar eru miklir sérfræðingar í sauðfjárrækt. Þór Saari sagði nýlega: „Sauðkindin er sennilega merkasta skepna þessa lands, að mönnunum meðtöldum.“ Og vestfirska sauðkindin er sannarlega gulls ígildi. Meðan Vestfirðir eru látnir falla í sinu, er jafnvel heilu sauðfjárhjörðunum beitt á örfoka land í öðrum landshlutum!

Ferðamennskan

   Ferðamennskan er góð og gild sem slík að vissu marki. Eiginlega mjög góð. Sumir telja það þó grimm örlög ef Vestfirðingar verða í framtíðinni bugtandi og beygjandi ferðaþjónar upp til hópa. Og Vestfirðir Mallorca norðursins.  Framhaldið verður svo trúlega að Indriða á Skjaldfönn, einum mesta fjárhirði landsins og hans líkum hér vestra, verður stillt upp sem sýningargripum fyrir ferðafólk. Er metnaðarleysið algert?  

Smiðjudrengir og aðrir ómissandi menn

Sú var tíðin að Vestfirðingar bjuggu að sínu hvað ýmsar þjónustugreinar við atvinnuvegina snerti. Voru jafnvel eftirsóttir af öðrum þjóðum sem stunduðu hér fiskveiðar. Vestfirsku smiðjurnar og aðrir iðnaðarmenn voru ómissandi hlekkur í keðjunni. En nú er hún Snorrabúð stekkur.

 

 

Fleiri stoðir undir atvinnuvegina!

 

Það þarf að skjóta fleiri stoðum undir atvinnuvegina hér vestra hefur verið vinsæl setning hjá sumum ráðamönnum. Þeir hafa oft tönnlast á þessu, einkum fyrir kosningar. Því miður hefur það verið meira í orði en á borði. En hugmyndaflug, kjark, þor og einbeitni til að styðja það sem fyrir er, hjálpa mönnum til sjálfshjálpar, vantar sárlega.

 

   „Sérhverri þjóð vegnar vel, sem hefir lag á að sjá kosti lands síns og nota þá, eins og þeir eiga að vera notaðir,“ sagði Jón Sigurðsson 1838.

    Eru þessi orð ekki enn í fullu gildi?


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31