A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
19.02.2018 - 10:51 | Hallgrímur Sveinsson,Guðmundur Ingvarsson,Bjarni Georg Einarsson,Hallgrímur Sveinsson og Hreinn Þórðarson

Þrenning sem hvílir þungt á Vestfirðingum

Sveitarstjórnarkosningar eru í vor. Þá verða margir kallaðir en fáir útvaldir. Ljóst er að þeir útvöldu hér vestra verða að huga að eftirtöldum þremur stórmálum Vestfirðinga sem eru hvarvetna í umræðu. Þau eru nátengd hvert öðru.

1. Vestfirska rafmagnið

Það var kraftaverk að rafvæða Vestfirði fyrir 60 árum. Og koma orkunni nánast á hvert byggt ból. En nú sárvantar Vestfirðinga öruggt og stöðugt rafmagn. Lái þeim hver sem vill. Þetta eilífa basl þeirra að halda rafmagninu inni er löngu orðinn brandari á landsvísu. En þeir eiga að framleiða sitt rafmagn sjálfir. Eru ekkert of góðir til þess. Á Vestfjörðum er hægt að reisa og reka öruggustu vatnsvirkjanir landsins. Sé það gert í góðri sátt við náttúruna er engu spillt.
Frumkvöðlar Hvalárvirkjunar og fleiri virkjana hér vestra, eru ungir Vestfirðingar. Þeir hafa verið aldir upp við að bjarga sér sjálfir líkt og gilt hefur á Vestfjörðum frá upphafi byggðar. Hafa staðið í þessu basli á eigin forsendum og ekki látið deigan síga. Slíkt er alltaf traustvekjandi.


2. Fiskeldið
„Fiskeldi á Vestfjörðum hefur virkað sem kraftaverkalyf á byggðarlög, sem heltekin voru af hrörnunarsjúkdómi. Sá sem hefur vaknað eldsnemma á Bíldudal, fundið driftina í mannlífinu á leið til vinnu, orkuna, hamarshöggin og baráttuna um lausu bílastæðin, skilur hvað fiskeldi hefur fært inn í vestfirskt samfélag, líf, vöxt og menningu.“
Svo skrifar Pétur Markan, sveitarstjóri í Súðavík. Á bak við þennan grípandi texta býr mikil trú á landið og gullkistuna okkar. Sporin hræða að vísu. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og fleiri fóru flatt á fiskeldinu á sinni tíð. Menn fóru allt of geyst. Steingrímur sagði að aðstæður til fiskeldis hér á landi væru ekki verri en annars staðar. Líklega væru þær betri ef eitthvað væri.
Almenn skynsemi segir okkur að við verðum að nýta þá möguleika sem eru í farvatninu. Annað væri glapræði. En við skulum flýta okkur hæfilega. Lærum af reynslunni. Róm var ekki byggð á hverjum degi eins og þar stendur! Sleppum öllum æðibunugangi. Þá mun vel fara. Það eru gömul og sígild sannindi. En spyrja verður: Hvert fer arðurinn af fiskeldinu?

3. Almennilegan veg í Gufudalssveit
Á ótrúlega skömmum tíma lögðu vestfirskir vegagerðamenn vegi svo til að hverjum einasta bæ á Vestfjörðum. Það var torsótt vegagerð. En eyðilögðu þessir brautryðjendur landið? Sumir segja að alls ekki megi leggja veg um Teigsskóg og Hallsteinsnes í

Gufudalshreppi. Þá sé voðinn vís. Þeir góðu menn átta sig ekki á að búið er að leggja vegi vítt og breytt um alla Vestfirði á mjög svo sambærilegum stöðum við þennan margumrædda og góða skóg. Fáir meinbugir þar á. Náttúran alveg söm við sig eftir
því sem séð verður.
Þráteflinu í Gufudalssveit verður að ljúka. Við þurfum þokkalegan heilsársveg í stað moldarveganna sem eftir eru í sveitinni. Ódrjúgsháls og Hjallaháls heyra til liðnum tíma. Stóra spurningin er náttúrlega hvort ekki er hægt að ljúka vegalagningu í Gufudalssveit án þess að fara um Teigsskóg eða bíða í áratugi eftir jarðgöngum. Nokkrir spekingar hafa komið með ábendingar um önnur vegstæði. Þær mætti skoða betur.

Á að setja málið í gerðardóm?
Menn hafa nefnt að taka eigi land eignarnámi undir veginn og jafnvel setja lög. Skoða mætti líka hvort ekki væri heppilegast að Alþingi eða Hæstiréttur skipi gerðardóm hinna bestu manna til að ljúka þessu endalausa þrátefli. Sagan segir okkur að slíkt hafi oft verið gert þegar mál hafa verið komin í óefni, sbr. hvað gerðist á Þingvöllum árið 1000. Ákvarðanir gerðardómsins þyrftu að vera bindandi fyrir alla aðila. Dómurinn fái skamman tíma til að ljúka störfum. Og heimamenn í Reykhólahreppi verði þar í oddaaðstöðu. Það væri tilbreyting í því.

Hallgrímur Sveinsson Guðmundur Ingvarsson Bjarni G. Einarsson

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31