A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
06.03.2016 - 06:57 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Þórarinn Vagnsson í Hrauni

Þórarinn Vagnsson (1893-1976), bóndi í Hrauni og eiginkona hans, Sigríður Guðrún Mikaelsdóttir (1893-1971). Börn þeirra sem upp komust voru: Unnur, Valdimar, Kristinn Pétur, Aðalheiður Guðmunda, Elías Mikael Vagn, Vilborg Jórunn, Kristján Rafn Vignir og Ingólfur. Ljósm. Sigurður Guðmundsson.   (Úr fórum Katrínar Gunnarsdóttur)
Þórarinn Vagnsson (1893-1976), bóndi í Hrauni og eiginkona hans, Sigríður Guðrún Mikaelsdóttir (1893-1971). Börn þeirra sem upp komust voru: Unnur, Valdimar, Kristinn Pétur, Aðalheiður Guðmunda, Elías Mikael Vagn, Vilborg Jórunn, Kristján Rafn Vignir og Ingólfur. Ljósm. Sigurður Guðmundsson. (Úr fórum Katrínar Gunnarsdóttur)

     Þórarinn Vagnsson í Hrauni var greindur karl og kunni hafsjó af fróðleik. Hann var einn af þessum óborganlegu sagnaþulum sem gaman var að hlusta á. Afburða sögumaður. En það var sama með hann og Kristján Jakobsson. Þeir sögðu sögur af þeirri list sem ekki verður endurflutt. Slíkt verður aðeins reykurinn af réttunum.

 

     "Þá hef ég ekki verið uppi"

 

     Það var seinnipart sumars að mikið smokkfiskírí var í Arnarfirði sem oftar. Leifur Þorbergsson var þá skipstjóri á Gullfaxa og þeir fóru vestur í Arnarfjörð að veiða smokk. Til að þurfa ekki að keyra fyrir nesið, var smokkinum landað við Kúlusjóinn og fluttur á bílum yfir til Þingeyrar. Þórarinn fékk að vera með þeim á smokkinum. Ég man nú ekki hvað margir voru á, en Egill Halldórsson, kenndur við Dýrhól, var þar einn af skipverjum.

     Á laugardögum komu þeir stundum, strákar, sem voru lærlingar í Smiðjunni hjá Matthíasi og fengu að vera með Gullfaxamönnum á smokkfiskiríinu yfir helgina. Einhverntíma þegar þeir koma þarna um borð, fer Þórarinn að tala um hvað veðrið hafi nú verið leiðinlegt síðastliðna viku og fer mörgum orðum um það. Þar kom að Agli þótti nóg um og segir við Þórarin:

     "Þú hefur ekki sagt þeim frá því þegar við fórum heilu veltuna".

     Þá þagnaði Þórarinn, tinar, lítur á Egil og segir eins og frægt er, eftir stutta stund:

     "Ja, þá hef ég ekki verið uppi".

 

 

     Útvegur Þórarins

 

     Þórarinn átti eitt sinn árabát og gerði hann út frá Fjallaskaga. Sá bátur hét Hlín. Það var á fyrri búskaparárum hans. Hann var sjálfur formaður á bátnum með háseta undir sinni stjórn og var heppinn formaður, lánaðist vel hjá honum útgerðin. Svo ólánlega vildi til að í einhverju veðrinu fauk báturinn hjá honum og sást aldrei meir.

     Löngu seinna eignaðist hann bát sem Kristján Jakobsson í Höfn hafði keypt af Guðmundi Benónýssyni á Gerðhömrum og hafði verið smíðaður einhversstaðar norður á Ströndum og hef ég grun um að það hafi verið einhver Stígurinn eða Falurinn sem hann smíðaði. Af því fékk hann nafnið og var kallaður Strendingur. Þórarinn átti þann bát í nokkur ár og bar hann beinin inn í Haukadal.

     Fyrir kom að Þórarinn var nokkuð fljótur í förum á Strendingi. Hann sagði til dæmis frá því, að eitt vorið hefði hann og faðir minn farið norður í Súgandafjörð. Pabbi hafði átt töluvert af kartöflum og var að koma þeim í verð. Þegar þeir fóru til baka, þá var kominn norðaustan strekkingur fyrir firðina og þegar kom út fyrir Sauðanesið voru þeir komnir í nokkurn vind. Sagði Þórarinn sem dæmi um ganginn á Strendingi, að fram af Sauðanesinu hafi Magnúsi verið mál að pissa. En þegar þeir eru komnir vestur undir Kaplaskerin, sem eru norðan til í Barðanum, þá var hann að loka klaufinni! Þannig að gangurinn hefur verið nokkur á þeim góða bát.

     Þegar hvalveiðstöðin var rekin á Suðureyri í Tálknafirði, kom fyrir að Þórarinn fór þangað á báti sínum og sótti hvalaafurðir, rengi og svokallaða undanfláttu, fyrir okkur Kelddælinga. Þegar Þórarinn kom með björgina úr Tálknafirði, var hann vanur að hringsóla á víkinni fyrir framan dalinn og hóa svo undir tók í dalnum. Varð þá uppi fótur og fit og þustu menn til sjóar að taka á móti Þórarni. Ekki veit ég hvort menn borguðu eitthvað fyrir hvalrengið, en svo mikið er víst, að það þótti mikil björg í bú þar í Keldudal.

 

   (Úr viðtali við Guðmund Sören Magnússon, Mannlíf og saga, 7. hefti
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31