Þökk sé þeim sem ruddu brautina
Ákveðið var að efna til hátíðar 7. júlí þegar Alþingi kom saman. Þann dag afhentu fulltrúar kvenfélaganna í Reykjavík Alþingi þakkarskjal og haldinn var útifundur á Austurvelli. Skúli Thoroddsen alþingismaður furðaði sig á þessu þakklæti fyrir réttindi sem lengi hafði verið haldið frá konum og sr. Matthías Jochumsson orti:
að konum gefið þér? Vitið þér – hvað:
ég veit enga ambátt um veraldar geim
sem var ekki borin með réttindum þeim.
Þeim réttarins lögum að ráða sér sjálf,
Og ráða til fulls og að vera ekki hálf!
Hvað þoldir þú, píndist þú, móðurætt mín?
Ó mannheimur, karlheimur, blygðastu þín!
Mörgum fannst löngu tímabært að viðurkenna konur sem löglega borgara þjóðfélagsins, eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir orðaði það en meiri hluta þingsins fannst sæma að binda réttindi kvenna við 40 ára aldur meðan almennur kosningaréttur karla miðaðist við 25 ár. Samt sem áður ákváðu kvenfélögin að fagna og gera sem mest úr þessum réttindum.
Ingibjörg kjörin á þing
Á fundinum á Austurvelli flutti Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík ræðu þar sem hún gerði grein fyrir því til hvers konur ætluðu að nýta kosningaréttinn: „þegar vér höfum fengið rétt vorn viðurkenndan, til þátttöku, jafnt í opinberu málunum sem heimilismálunum.“ Ingibjörg sá greinilega fyrir sér að konur myndu taka þátt í opinberum málum og þá væntanlega á Alþingi. Það mál sem konur vildu m.a. beita sér fyrir á þessari stundu var bygging Landspítala með stofnun sjóðs og pólitískum þrýstingi. Landspítalasjóðurinn var stofnaður og tók að safna fé með árlegri söfnun 19. júní ár hvert.
Það varð bið á því að konur kæmust inn á þann opinbera vettvang sem Alþingi var og er. Bríet náði ekki kjöri 1916 og árið 1922 var þeim tveimur konum sem þá sátu í bæjarstjórn Reykjavíkur „sparkað“. Þá voru góð ráð dýr. Hluti kvennahreyfingarinnar í Reykjavík ákvað að bjóða fram til Alþingis í landskjörinu sem þá var framundan. Efst á lista var hin skörulega skólastýra Kvennaskólans í Reykjavík, Ingibjörg H. Bjarnason. Í öðru sæti var Inga Lára Lárusdóttir kennari og ritstjóri 19. júní, í því þriðja var Halldóra Bjarnadóttir heimilisráðunautur og í fjórða sæti skáldkonan Theodóra Thoroddsen. Til að gera langa sögu stutta náði Ingibjörg kjöri en segja má að þeir stjórnmálaflokkar sem þá störfuðu hafi ekki tekið kvennalistann alvarlega en urðu því reiðari er úrslitin lágu fyrir. Konur kusu ekki eins og eiginmenn þeirra eins og búist hafði verið við að sögn eins blaðsins.
Saga kvenna í 1000 ár
Ingibjörg H. Bjarnason sat á þingi frá 1922-1930. Hún átti að mörgu leyti erfiða vist á Alþingi og var sannarlega óvelkomin inn í reykfyllta sali karlveldisins. Árið 1924 gekk hún til liðs við Íhaldsflokkinn sem var þá verið að stofna. Mín kenning er sú að hún hafi fljótlega áttað sig á að hún kæmi engum málum í gegn ein á báti. Íhaldsmenn þurftu mjög á liðsmönnum að halda til að ná meirihluta og Ingibjörg stóð þeim nærri að sumu leyfi. Ég tel að hún hafi samið við Íhaldsflokkinn gegn því að Landspítalamálið kæmist í höfn og að Kvennaskólinn yrði gerður að ríkisskóla en hann átti stöðugt í fjárhagsvandræðum. Fljótlega var samið um byggingu Landspítalans og frumvarp var lagt fram um að gera Kvennaskólann að ríkisskóla en það náði ekki fram að ganga.
Ingibjörg kom ýmsum tillögum í gegn, t.d. um að afnema allar undanþágur hvað varðaði kosningu kvenna en þær gátu skorast undan kjöri, t.d. í nefndir á vegum sveitarfélaga. Merk tillaga hennar um að konur yrðu skipaðar í allar opinberar nefndir var felld umræðulaust í neðri deild. Tillaga hennar um styrk til Bandalags kvenna til að skrifa sögu kvenna í 1000 ár í tengslum við þúsund ára afmæli Alþingis náði heldur ekki fram að ganga. Gaman hefði verið að eiga þá sögu nú.
Fyrst og fremst kvenréttindakona
Ingibjörg var mjög sjáfstæð þingkona og verður seint talin flokksholl því hún viðurkenndi á þingi að hafa kosið kvennalistann sem boðinn var fram árið 1926. Þannig gekk á ýmsu í tíð Ingibjargar á þingi en hún skrifaði árið 1930 að konur mættu ekki láta það á sig fá að á þær væri ráðist bara af því að þær væru konur, það myndi breytast þegar konum fjölgaði á þingi.
Á þessum tímamótum finnst mér við hæfi að minnast Ingibjargar. Hún var fyrst og fremst kvenréttindakona sem beitti sér fyrir brýnum félagsmálum eins og spítala fyrir alla landsmenn, baráttunni við berklana, högum aldraðra, fátækra og barna, menntun og réttindum kvenna og stuðningi við félög þeirra. Hún vildi að allar leiðir væru konum opnar og að þær nýttu sér réttindi sín. Hún var ein þeirra kvenna sem ruddu brautina fyrir okkur sem á eftir komum. Þökk sé þeim hugrökku og baráttuglöðu konum. Okkar er að halda verki þeirra áfram.
Kristín Ástgeirsdóttir
Höfundur er sagnfræðingur og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.
Morgunblaðið föstudagurinn 19. júiní 2015