A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
23.07.2015 - 21:37 | Hallgrímur Sveinsson

Þjónandi prestar í Álftamýrarsókn á fyrri hluta 20. aldar

Séra Böðvar og fjölsk.
Séra Böðvar og fjölsk.
« 1 af 4 »

Viðtal við Sigurjón G. Jónasson bónda á Lokinhömrum

Úr Mannlífi og sögu fyrir vestan 7. hefti

2. hluti

 

 

     Og rósir spruttu í reiti þeim

 

      Þegar Gísli G. Ásgeirsson varð 75 ára 16. maí 1937, var eftirfarandi kvæði, sem Séra Böðvar orti til heiðurs meðhjápara sínum, sungið í veislu sem haldin var í stofunni á Áftamýri og er veislan sú Sigurjóni ákaflega minnisstæð. 

 

     Nú svás er aftansunna blíð,

     þótt sé að halla degi.   

     Hún reifar geislum grund og hlíð,

     og gyllir alla vegi.

     Í aftanroðans geislaglóð

     er greipuð mynd hins horfna.

     Þar geta lýðir lesið óð

     um lífið endurborna.

 

     Og ævikvöldin eiga þrátt

     hér einnig geisla sína.

     Þótt húmi undir hinztu nátt,

     í heiði oft þeir skína.

     Vér gleðjumst hér í geisla blett

     hjá Gísla á Álftamýri.

     Hann er æ sómi sinni stétt,

     og situr enn við stýri.

 

     Við hjálmunvöl með hugarró

     hann háar öldur risti.

     Af leiðarsteini´ á sollnum sjó

     hann sjónar aldrei missti.

     Þótt Ægir stigi úfinn dans,

     hélt ávalt hetjan velli,

     og sótti gull í greipar hans

     til grárrar hárrar elli.

 

     Á Álftamýri´ hann búi bjó

     með brúði-svanna prýði.-

     Hann yrkti land og sótti sjó,

     og sinnti snauðum lýði.

     Og snemma gjörðist garður sá

     af góðri risnu frægur.

     við alúð hreina´ og bros á brá,

     varð beininn gestum hægur.

 

     Og rósir spruttu´ í reiti þeim,

     er ranninn prýða góða.

     Þær eiga fagran andans seim

     og yndisþokka´ að bjóða.

     Á brautir föður breiða þær,

     með blíðu, yndi, gleði,

     svo honum vekur húmsins blær

     nú hugarró í geði.

 

     Þig Guð æ blessi, Gísli minn,

     og geislum fögrum krýni,

     svo inndæll verði aftan þinn,

     og ekkert böl þig píni.

     Er leggur þú á dauðans dröfn

     og dimmir fyrir stafni,

     þá stýrðu fleyi heilu´ í höfn

     í herrans Jesú nafni.

 

 

     "Hvað með góðgjörðir eftir messu?"

     "Það var alltaf viss passi að það var gefið veislukaffi á eftir messu, bæði hjá Gísla og Vagni Þorleifssyni eftir að hann kom."

     "Hvernig var tónið hjá séra Böðvari?"

     "Það var nokkuð sæmilegt".

     "Flutti hann langar ræður?"

     "Já, ég held að það hafi sjaldan komið fyrir að þær væru ekki klukkutíma. Messan í heild var þá jafnvel í einn og hálfan til tvo klukkutíma í heild. Ég man það, að þegar ég var yngri, var maður stundum anzi þreyttur að sitja undir ræðunum. Þá var hugurinn stundum við flugur út í glugga."

     "Þú manst náttúrlega ekkert eftir Ragnhildi, fyrri eiginkonu séra Böðvars, en Margréti, seinni konu hans, kynntist þú. Kom hún stundum með manni sínum til embættis?".

     "Já, já, hún kom oft með honum, sérstaklega að sumrinu og spilaði stundum í kirkjunni. Þær sátu þá hlið við hlið, hún og Jóhanna og þá átti Jóhanna betra með að syngja þegar Margrét spilaði. Þetta var alveg sérstaklega yndislegt fólk og gefandi að vera nálægt því."

 

 

Séra Jón Kr. Ísfeld

 

      Tíminn líður og að því kemur að séra Böðvar lætur af embætti 1941. Flytjast þau hjón þá til Dýrafjarðar og þaðan til Reykjavíkur. Þá varð prestlaust á norðurströnd Arnarfjarðar í rúmt ár. Þjónaði þá séra Sigurður Z. Gíslason Hrafnseyrarsókn og séra Jón Jakobsson á Bíldudal Álftamýrarsókn.

     "Manstu nokkuð eftir séra Jóni Jakobssyni?".

     "Nei, ég man lítið eftir honum. Hann messaði mjög sjaldan í Álftamýrarkirkju, mig minnir ég hafi farið einu sinni til messu hjá honum."

      Sumarið 1942 kom nýr prestur að Hrafnseyri, séra Jón Kr. Ísfeld.

Sat hann staðinn til 1944, en flutti sig þá um set yfir á Bíldudal. Þjónaði hann einnig Hrafnseyrarprestakalli frá 1944 til 1946, meðan þar var prestlaust og svo aftur frá 1947 til 1954.

     "Hélt séra Jón Kr. Ísfeld svipuðum stíl á hlutunum og séra Böðvar?".

     "Það var auðvitað sama messuformið, en ræðurnar voru ekki eins langar hjá séra Jóni! En það var allt ákaflega hátíðlegt eins og hjá forveranum. Hann var heilmikill kennimaður"

     "Hvernig ferðaðist séra Jón á annexíuna?“

     "Hann kom stundum á bát. Magnús á Auðkúlu og Jón Kr. Waage fluttu hann þegar hægt var. Annars kom hann gangandi."

     "Kom hann út í dal til athafna?".

     "Það kom fyrir, en það var nú ekki mikið um það."

     "Hvernig var með söng í kirkjunni þá?".

     "Þá var nú ekkert spilað á orgel í langan tíma. Ég man eftir að Þórður Njálsson söng og sonur hans Njáll. Við hjálpuðumst að við forsönginn, við Þórður. Hann var ekki alltaf öruggur á hvaða tóninum hann ætti að byrja til að sprengja nú ekki allt, eða vera of lágur í því. Ég tók það nú stundum að mér og það heppnaðist alltaf vel. Annars sungu nú fleiri sem gátu haldið lagi og mér finnst það nú hátíðlegast þegar allir taka þátt í guðsþjónustunni sem treysta sér í það".

    "Gengu prestarnir þetta einir eða fengu þeir fylgd, til dæmis út í dal?".

    "Séra Böðvar fór yfirleitt alltaf einn, en Þórður Njálsson lét stundum fylgja séra Jóni Ísfeld út á fjörur og aðrir komu á móti að utan. Ég man eftir því að séra Böðvar kom einu sinni út í dal. Þá var Þuríður systir mín í vist hjá þeim Margréti og hún fékk að koma úteftir með honum á jólunum þegar hann messaði þar. Séra Böðvar orti vísu í því ferðalagi, þegar þau voru út undir Skútabjörgum. Grjót var sílað og hált og þótti honum systir mín vera fim að fóta sig. Vísan er svona:

 

                          Það er von þó þú sért fljót,

                          um þennan klungurhaga.

                          Þú ert alin upp við grjót,

                          alla þína daga."

 

     "Það var auðvitað ekki um annað að ræða hjá séra Jóni, eftir að hann varð prestur á Bíldudal, en koma úteftir á bát?".

     "Já, Bílddælingar skoruðu á hann að sækja þangað eftir Þormóðsslysið, en í því hræðilega slysi fórst séra Jón Jakobsson ásamt fjölda Bílddælinga. Hann kom nú sjaldan til messugerða eftir það, sérstaklega að vetrinum, en þó kom það fyrir."

     "Tónaði séra Jón fallega?".

     "Já, hann tónaði mjög vel. Ætli hann hafi ekki verið einna bestur á því sviði sem ég man eftir í minni sveit. Hann var alltaf glaðlegur og með gamanyrði á vör og mjög aðlaðandi og skemmtilegur prestur. Séra Böðvar var alvarlegri maður".

 

 

      Hillan sú er hræðileg

 

     "Þegar messað var í Álftamýrarkirkju í þínu minni, fóru þá allir til messu af bæjunum sem vettlingi gátu valdið?"

     "Ekki að vetrarlagi. Þá var það ekki nema yngra fólkið sem fór til messu. Það var það langt að ganga fram og til baka. Ég tala nú ekki um á jólunum í skammdeginu. Það var fyrir forvaða að fara á Hilluhálsi og Pétursnefi, en það kom yfirleitt ekki að sök þar sem fólk þekkti á þetta. Hillan var verst.

        

                   

                      Hillan sú er hræðileg,

                      hér er brim og klaki.

                      Oft er slys á vondum veg,

                      af villtu fótataki.

 

Þetta orti alþýðuskáld Auðkúluhrepps, Njáll Sighvatsson í Stapadal.

   

 

      Um síðustu aldamót var sett járnhandrið á Hilluna til öryggis vegfarendum og stendur það enn að hluta. Talið er að Pétur Björnsson, gullgrafari sem kallaður var, sá sem reisti Pétursvör utan Bíldudals, hafi sett handriðið upp.

     Eitt sinn var Álftamýrarprestur, líklega séra Jón Ásgeirsson, sem sat staðinn frá 1839-1863, á leið í Lokinhamradal um vetur. Datt hann á hálku á Hillunni og missti tösku sína í sjóinn en í henni var kirkjubókin og sást hvorugt síðan. 

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31