„Þessu eru allir löngu búnir að gleyma“
Flogið hefur fyrir, að íslenska þjóðin, 320 þúsund manns, hafi á sínum snærum í kringum 70 þúsund opinbera starfsmenn. Er þá átt við ríki og bæ í það heila tekið. Kunnugir telja þó að hvergi sé hægt að fá staðfestingu á fjölda opinberra starfsmanna. Margur gæti haldið að landið mundi ekki sporðreisast þó fækkað yrði nokkuð í þessari vösku sveit. Nota svo þá fjármuni sem þannig mundu sparast á einhvern skynsamlegan hátt, til dæmis í heilbrigðiskerfið. Þess er að minnast að eitt sinn sögðu Sjálfstæðismenn: Báknið burt. Þessu eru allir löngu búnir að gleyma. Báknið umrædda er löngu vaxið okkur yfir höfuð. Það hefur tútnað út eins og púkinn á fjósbitanum. Þetta vita allir menn, góði, eins og séra Baldur mundi segja.
Þegar nýr meirihluti tók við í Árborg árið 2010 stefndi í tæknilegt gjaldþrot sveitafélagsins og að það tæki fjölmörg ár að snúa við viðvarandi hallarekstri. Það hefur aftur á móti tekist á örfáum árum og í dag hafa skuldir sveitafélagsins verið lækkaðar töluvert. Þetta sagði Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má á mbl.is um daginn. Það er þjóðarnauðsyn að vekja athygli á þessu viðtali.
„Samkvæmt þriggja ára áætlun sem var lögð fram árið 2009 þá stefndi í að eigið fé yrði neikvætt, tæknilegt gjaldþrot, og það var viðvarandi halli á sveitafélaginu sem ekki var talið að snúið yrði við fyrr en eftir mörg, mörg ár. En okkur tókst að snúa þessu við á skemmri tíma en við höfðum þorað að vona og höfum skilað afgangi árin 2010 - 2012,“ segir Eyþór.
Hann telur að lykillinn að þessum árangri hafi verið að byrja á sjálfum sér, en stjórnunarstöður hjá sveitafélaginu voru skornar niður um helming. Þannig hafi boðleiðir styst og stjórnkerfið verið minnkað um eitt lag.
„Við vorum með stóra hljómsveit og allskonar stöður, en við fækkuðum þessu niður í bassa, hljómborð og gítar,“ segir hann. Þessa skemmtilegu samlíkingu Eyþórs Arnalds má vel yfirfæra á Báknið okkar í heild. Að vera að burðast með 70 þúsund manna dixieland hljómsveit til að þjóna okkar litlu þjóð hlýtur að vera einum of mikið hvernig sem á er litið. En því miður. Fátt bendir til annars en þetta Big band sé komið til að vera. Enda erum við sjálfsagt tæknilega gjaldþrota. En hvert eiga þá hljóðfæraleikararnir sem ofaukið er í bandinu að fara? Þeir eiga bara að stofna sína eigin hljómsveit, mundi sveitamaðurinn segja. Og fara að framleiða til útflutnings með hvatningu og stuðningi þess opinbera. Parkinson heitinn mundi örugglega taka undir það.