Þáttur úr sögu Hrafnseyrar: - Lítilsháttar af móður Jóns Sigurðssonar og systur
Madama Þórdís
“Engin bréf eru varðveitt frá madömu Þórdísi á Rafnseyri til Jóns sonar hennar, og öldungis er óvíst, að hún hafi nokkurn tíma skrifað honum. Af þeim sökum verður því ekkert um það sagt, hvernig hún hefur litið á það, að Jón skyldi gefa sig við fornfræðisýsli og stjórnmálastörfum. Allir, sem víkja að Rafnseyrarheimili í bréfum til Jóns, minnast móður hans með mikilli virðingu og hlýleik, og er helzt svo að sjá sem hún hafi ekki aðeins ráðið á borð við bónda sinn innan stokks, heldur einnig utan. Foreldrar Jóns senda honum tíðum sitthvað matarkyns, og jafnframt berast Rafnseyrarheimili gjafir frá honum.”
Margrét á Steinanesi
“Þriðja Rafnseyrarsystkinið var Margrét, síðar húsmóðir á Steinanesi. Maður hennar var Jón Jónsson frá Suðureyri. Hann stjórnaði mörg sumur skipi frá Bíldudal, þótti laginn sjómaður og aflasæll. Börn þeirra urðu ellefu, en af þeim komust sjö til fullorðinsára. Þegar Jón féll frá haustið 1856, voru sum þeirra enn í ómegð. Allmiklar heimildir eru til um samband Jóns Sigurðssonar við Steinaneshjón, einkum Margréti, bæði áður og eftir að hún varð ekkja. En ekki er þaðan að hafa nokkra vitneskju um áhuga þeirra á þeim málum, sem Jón bar fyrir brjósti, þegar undan er skilið, að systir hans reynir að vera honum innan handar með útvegun gamalla bóka. Bréf Margrétar lýsa því ótvírætt, að mjög innilegt samband hefur verið milli þeirra systkina. Þau skiptust árlega á sendingum, en jafnframt styður Jón hana fjárhagslega, eftir að hún hefur misst bónda sinn. Um alllangt skeið leggur hann 50 ríkisdali í verzlunarreikning hennar á Bíldudal og lætur hana jafnframt fá afgjöld af jarðeignum, sem komið höfðu í hans hluta eftir lát föður þeirra. Loks tekur hann einn son hennar í fóstur, níu ára gamlan, og gengur honum í föður stað upp frá því. –
Margrét víkur víða að því í bréfum sínum, að stuðningur Jóns dragi sig drjúgt. "Búskapurinn gengur mér svona, hann er kostnaðarsamur, en enginn hjálpar mér til að bera þann kostnað nema þú." Þegar Jón hafði lagt inn í reikning hennar eða sent henni 50 ríkisdali árlega í fjórtán ár, hefur hún orð á því, að hann þurfi nú ekki lengur að senda sér dalina, því að hún muni nú komast af. - "Ég man nú ekki fleira að rugla við þig nema biðja þig forláts á því og umfaðma þig í anda þakkandi þér í einu orði fyrir allar gjafirnar og velgerðirnar við mig og mína, því þú mátt heit faðir barnanna,” segir Margrét í bréfi 19. september 1866. Verður þakklæti hennar fyrir aðstoð Jóns vart betur lýst.
Ekkert af börnum Margrétar vestra hafði samband við Jón nema Þorleifur sonur hennar, en hvorki var hann áhuga- né áhrifamaður um þjóðmál. Virðist Jón hafa viljað vekja áhuga hans í þeim efnum með því að senda honum Ný félagsrit. Þakkar Þorleifur að vísu sendinguna, en segist ekki hafa lesið. Þorleifur var enn á lífi, þá er Arnfirðingar minntust aldarafmælis Jóns, og var hann nákomnasta ættmenni hans, sem þá kom til Rafnseyrar.”
(Lúðvík Kristjánsson: Vestlendingar, síðara bindi, fyrri hluti, Heimskringla, Rvk. bls. 31-33) Maður sem lánaðist Vestfirska forlagið 2011.