Þættir úr sögu Hrafnseyrar
2. grein
Hrafn Sveinbjarnarson
Bærinn Eyri við Arnarfjörð kemur mjög við fornar sögur landsmanna. Þar bjuggu fyrst Án rauðfeldur úr Noregi og Grelöð, sem var jarlsdóttir frá Írlandi. Á Eyri þótti henni hunangsilmur úr grasi. Á Sturlungaöld bjó þar Hrafn Sveinbjarnarson, sem talinn er fyrsti lærði læknir á Íslandi. Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar segir:
„Við mörgum mönnum vanheilum og félausum tók hann, þeim er þrotráða voru, og hafði með sér á sínum kostnaði, þangað til þeir voru heilir. Eigi aðeins græddi Hrafn þá menn, er særðir voru eggbitnum sárum, heldur græddi hann mörg kynjamein þau, er menn vissu eigi hvers háttar voru.“
Enn segir í Hrafns sögu:
„Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti og skip á Barðaströnd. Það höfðu allir þeir er þurftu yfir Breiðafjörð. Og af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvorum tveggja firðinum fyrir hvern, er fara vildi.“
Hrafn framkvæmdi minni háttar uppskurði á heimili sínu og er ekki fráleitt að ætla að á Eyri hafi verið eitt allra fyrsta sjúkrahús landsins, þó með öðrum hætti hafi verið en tíðkast í dag. Þegar kemur fram á 15. öld er farið að nefna staðinn eftir Hrafni og kalla Hrafnseyri.
Hallgrímur Sveinsson.