Það verður að fá lán fyrir vitleysunni!
Nú ætlar Landsbankinn að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar og sameina sextán starfstöðvar á einn stað, sem eru hin ýmsu útibú sem eru til þess að auðvelda viðskifavinum að sækja þá þjónustu sem hann býður upp á.
Eftir það mega þeir sem þurfa á þjónustu Landsbankans að halda gera sér ferð niður að Reykjavíkurhöfn hvar sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á aðeins að kosta átta til tólf milljarða. Nokkuð vel í lagt. Eða eiga allir að vera komnir með heimabanka? Þá væri kannski hægt að komast af með minni byggingu, sem mundi hafa yfir að ráða sæmilegri tölvu sem hefði eftirlit með öllum viðskiftum. Þá væri hægt að segja upp allstóum hópi starfsfólks. Það getur sparað þessa stóru byggingu til stórra muna.
Þetta er ekki það eina sem manni blöskrar. Í fréttum í gær voru taldar upp 4 eða 5 stórar verksmiðjur, sem verið er að huga að núna og nefndir voru tvö hundruð og tuttugu milljarðar, sem það muni kosta að koma þeim upp. Fyrir utan það að ekki er til orka í landinu fyrir þessum ósköpum. Eigum við kannski að fara að flytja inn raforkuna? Þá verður líka að flyja inn iðnaðarmenn því þeir eru ekki til heldur nema að litlu leyti.
Er til fjármagn í allar þessar framkvæmdir? Ég held ekki. Þess vegna verður að fá lán fyrir þessari vitleysu, mér sýnist þá vera stutt í næstu kollsteypu.
Hafa menn ekkert lært af síðasta hruni?
Ólafur V. Þórðarson.