A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
07.10.2009 - 11:13 | Hallgrímur Sveinsson

“Það fóru að minnsta kosti 20 kindur fyrir ofan þig”

Það er gott að fá sopann sinn! Ljósm H. S
Það er gott að fá sopann sinn! Ljósm H. S
Stend ég uppi á högginu
je, je, je.
Þarna kemur hún Gunna mín,
me, me, me.

Þetta er upphafið á löngum brag sem ortur var fyrir hönd Félags fyrirstöðukvenna-og manna í Auðkúluhreppi hinum forna, á högginu fyrir neðan Þorbjarnardal, utan Gljúfurárdals í Arnarfirði. fyrir mörgum árum. Þá vorum við þar í fyrirstöðu Leifur heitinn Þorbergsson, skipstjóri og undirritaður og gekk bara furðu vel hjá okkur.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, skal tekið fram að þeir sem veljast í fyrirstöður eiga að sjá til þess að féð sem stórsmalar reka á undan sér niður dali og út fjallahlíðar fari ekki út í buskann á ákveðnum stöðum, þegar minnst varir. Er þetta oft þar sem dalir og hlíðar mætast, við girðingarhorn lengst upp í hlíð eða bara fyrir ofan bæinn.

Í fyrirstöður eru oft sett börn og gamalmenni, miðaldra konur, léttadrengir og menn með 20-30 kílóa yfirvigt og þaðan af meira, sem ekki komast á fjöll eða fram á dali.  Eins og mörgum er kunnugt, er það ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera í fyrirstöðu þegar smalað er hér í vestfirsku fjöllunum.  Stundum þarf fyrirstöðufólkið að bíða klukkustundum saman eftir að nokkur skepna láti sjá sig og annað eftir því.

Og hver kannast ekki við setningar eins og þessar:

"Sástu ekki hana Móru? Það lá við að hún færi í gegnum hausinn á þér?"

"Það fóru að minnsta kosti 20 kindur fyrir ofan þig. Þú varst allt of neðarlega."

"Veturgömlu hrútarnir fóru allir fyrir neðan þig og beint inneftir. Þú varst alltof ofarlega."

"Það slapp bara meiri parturinn af fénu. Gátuð þið ekki dreyft ykkur betur þarna uppi?"

Niðurstaða okkar er sú að það sé með vanþakklátustu störfum hér vestra að vera í fyrirstöðu. Sumsstaðar veitir reyndar ekkert af tveimur til þremur gildum mönnum til að standa fyrir sem kallað er. Svo erfiðar geta sumar fyrirstöður verið og dugir meira að segja ekki alltaf til, sem dæmin sanna. Spurningin er hvort ekki má bara sleppa sumum fyrirstöðum og standa öðruvísi að málum. Þetta þurfa sérfræðingar okkar að skoða!

Að öllu gamni slepptu, þá er ekki annað vitað en göngur hafi gengið þokkalega hér vestra að þessu sinni og fé kemur víða rígvænt af fjalli sem oft endranær.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31