Tækni og vald: Handan Facebook skandala
Á Íslandi er lífseig saga um að bændur hafi árið 1905 riðið til Reykjavíkur til þess að mótmæla símanum. Yfirleitt er þessi saga sögð sem dæmi um hvernig alltaf séu til afturhaldsseggir sem mótmæli sjálfsögðum framförum. Raunveruleikinn var víst eitthvað flóknari eins og vill vera, og tengdust deilum um hvort leggja ætti ritsíma um streng eða nota loftskeyti, og sjáflsagt hafa sértækir og almennir hagsmunir litað afstöðu manna.
Átök og deilur um tækni snúast enda sjaldnast um hvort við viljum hana eða ekki. Tæknin er þessháttar hreyfiafl í samfélaginu, að þeir sem setja sig beinlínis á móti henni deyja hratt út. Hinsvegar er uppbygging hennar, hvernig hún er notuð og af hverjum allt annað en sjálfsagt, og líkt og með deilurnar um símann fléttast þar inn í mun djúpstæðari mál.
Upplýsingin vill vera frjáls?
Í árdaga internetsins upplifðu margir það sem einskonar villta vestrið. Tæknileg bygging netsins er dreyfð og byggði á samskiptum yfir staðla. Enginn einn hafði stjórn á netinu. Helsta gagnrýni manna í upphafi tengdist þessu stjórnleysi: Illa gekk að koma í veg fyrir miður fallega hluti mannlífsins s.s. barnaklám og að sama skapi urðu eigendur höfundarréttar fyrir barðinu á stjórnlausri dreyfingu.
Þetta þóttu mörgum vera helsti kosturinn við það. Þessi anarkismi upplýsinganna kristallaðist í slagorðinu „information wants to be free“ sem náði hámarki á 10. áratugnum. Í dag eimir enn af þessari hugmyndafræði í málflutningi Pírata á Íslandi, og eitt af fyrirferðamestu afsprengjum þessarar menningar sæberpönkara er rafmyntin bitcoin, sem er einskonar píramítasvindl á stórum skala sem eyðir mjög miklu rafmagni.
Aftur til miðstýringar
Í dag hefur ástandið snúist algjörlega á haus. Þó undirliggjandi staðlar tækni internetsins séu þeir sömu, þá hefur miðstýring upplýsinga og samskipta aldrei verið meiri í sögu mannkyns. Tvö fyrirtæki, Facebook og Google, bæði í Kísildal í Bandaríkjunum, ráða yfir upplýsingum um daglegt líf og athafnir milljarða manna, niður í smæstu smáatriði í hegðun er safnað og greint.
[caption id="attachment_625" align="alignnone" width="980"]Stilla úr myndinni "Life of others"[/caption]
Á 20. öldinni gengu eftirlitsstofnanir ríkisins oft langt í að njósna um borgana, og hafa áhrif á hvað kæmist fyrir augu almennings og hvað ekki. Munurinn á þeim og tæknifyrirtækjunum er hinsvegar að mun minni hluti alls dagslegs lífs var á formi sem hægt var að safna, og möguleikinn til að fylgjast með takmarkaðist við hversu mikið starfsfólkið komst yfir. Það var hreinlega ekki hægt að fylgjast með öllum, alltaf. Eftirlitið takmarkaðist því óneitanlega við þá sem þóttu hættulegir eða grunsamlegir.
En vegna þess hvernig söfnun og greining upplýsinga hefur breyst með tækninni, væru mistök að telja að hún sé okkur óviðkmandi nema við séum hættuleg eða grunsamleg líkt og í gamla daga. Valdið sem felst í söfnun og greiningu upplýsinga er mun áhrifameira en svo.
Getur Zuckerberg breytt því hvernig þér líður?
Árið 2014 komst upp að Facebook hafði gert tilraun með tilfinningalega líðan notenda sinna. Nokkur hundruð þúsund notendur voru, án þess að vita það, þátttakendur í tilraun sem gekk út á að annaðhvort minnka eða auka magn jákvæðs efnis sem tilraunadýrin sáu frá vinum sínum. Fiktið var aðeins örlítið í báðar áttir, og rannsakað var hvort breytingin hefði áhrif á magn jákvæðra eða neikvæðra skilaboða frá tilraunadýrinu myndu aukast eftir breytinginuna í því hvað það sá. Þar sem breytingin var minnuháttar á hlutfalli efnis, varð einstaka notandi ekki var við að verið væri að breyta efninu hans.
Það sem við sjáum eða ekki í fréttaveitiunni okkar á Facebook er valið eftir flókinni formúlu, algrímu, sem á að sortera fyrir okkur allan þann hafsjó efnis sem þangað kemur inn. Markmðið er auðvitað að við séum líklegri til að sjá það frá vinum okkar sem við höfum meiri áhuga á. Hvort okkur er hollt að sjá bara það sem við viljum sjá er önnur umræða. Á svipaðan hátt stýrir Google leitarniðurstöðum þannig að þær eru bestaðar eftir flóknum formúlum.
Tilraun Facebook til að mæla áhrif sín á jákvæðni eða neikvæðni minnir okkur á að við vitum ekki og höfum ekki stjórn á því hvernig þessi sortering fer fram. Það kann að vera að ásetningur Facebook sé aðeins að gera þjónustuna betri, en væru algrímunni beitt á varfærin og lúmskan hátt, t.d. til að láta ákveðin sjónarmið heyrast frekar en önnur, þá hefðum við ekki hugmynd um það en það gæti haft gríðarleg áhrif á heildar umræðuna. Okkur er í raun gert að treysta þessum Kalifornísku tæknifyrirækjum til þess að fikta ekki með heimsmynd okkar líkt og gert var í tilrauninni.
Beislun múgsins
Nýjasti skandall Facebook gengur út á hvernig gagnafyrirtækið Cambridge Analytica notaði upplýsingar sem safnað var þar til þess að hafa áhrif á stjórnmálaumræðu á samfélagsmiðlum. Viðbrögðin við þessum fréttum eru vafalaust lituð af þeirri pólitísku skautun sem á sér stað á tímum Trump og Brexit, og kemur í kjólfar óttafullrar umræðu um nettröll Rússa á samfélagsmiðlum.
[caption id="attachment_621" align="alignnone" width="525"]Farsímanotendur á Kúbu / mynd: Ramon Espinosa/AP.[/caption]
Annað minna þekkt dæmi um beina noktum samfélagsmiðla kemur úr samskiptum Kúbu og Bandaríkjanna, og er um margt grófara og klaufalegra. Kúbverjar eru langt aftur í fjarskiptatækni, og hefur tekið langan tíma að netvæða almenning þar. Því varð eitt af fyrstu samfélagsmiðlum eyjarinnar byggt á farsímum frekar en tölvum. Þjónustan var nefnd ZunZuneo sem er spænsk vísun í Twitter, og virkaði svolítið eins og sú þjónusta, bara í gegnum SMS. Þjónustan náði einhverri útbreiðslu gegnum dægurmál líkt og íþróttir og veðrið, en það var þó ekki lokatakmark aðstandenda þjónustunnar að halda sig við svo saklaus málefni.
Það sem Kúbverskir notendur tvittersins vissu ekki, var að þjónustan var runnin undan rifjum bandrískra þróunarstofnunnar (UsAid) og markmið hennar var, eftir að nægur fjöldi notenda væri kominn, að nýta aðgengið að fólki til að koma á fót „sjálfsprottnum“ mótmælum og öðru andófi gegn þarlendum stjórnvöldum.
Hvort sem gerendur eru Bandaríkin, Rússar eða lúmskir kosningastjórar í hræðsluáróðri, er ljóst að valdið leitar leiða til að nota samfélagsmiðlana eins og annað í sínum tilgangi. Það sem einkennir hinsvegar stjórnun á tímum samfélagsmiðlanna er ekki beint valdboð líkt og ritskoðun, beinn áróður eða njósnir um andófsmenn, heldur mun lúmskari og óbeinni áhrif þar sem við verðum ekki vör við beint valdboð.
Samsæri og bölsýni
Það er ekki markmið þessarar greinar að halda því fram að alsherjar samsæri sé í gangi um misnotkun samfélagsmiðla í annarlegum tilgangi til fjöldaheilaþvotts. Þvert á móti er þorri mannkyns sennilega mun upplýstari og betur að sér en hann hefur nokkru sinni verið. Dæmunum á undan er ætlað að sýna að í tækninni felst vald, hvernig sem því er beitt, og hvorki þróun valdsins né tækninnar er hægt að slíta í sundur frá hvort öðru.
Síðasta dæmið sem er tiltekið hér er af öðrum meiði. Um árið vakti athygli þegar yfirvöld á Indlandi bönnuðu Facebook að bjóða upp á ókeypis internet þar í landi sem ætlað var fólki sem hafði ekki áður kost á slíkri þjónustu. Þar sem hnífurinn stóð hinsvegar í kúnni var, að í þessu fría interneti var aðeins hægt að nota Facebook og aðrar valdar þjónustur. Facebook hefði þannig byggt upp nýja kynslóð internet notenda sem voru algjörlega á valdi fyrirtækisins.
[caption id="attachment_626" align="alignnone" width="736"]Mótmæli gegn "ókeypis interneti" Facebook[/caption]
Í ríkjum líkt og Indlandi kannast menn nenfinlega fljótt við mynstur nýlendustefnunnar, þar sem iðnvæðing og önnur tæknileg þróun var gerð á þann hátt að nýlendan varð háðari nýlenduherranum í stað þess að valdeflast. Ef nýjir hópar netnotenda á Indlandi eru bundnir við Facebook og handvalda aðila, kemur það í veg fyrir að landið þrói álíka þjónustur eftir eigin höfði og hentugleika, og gerir allt samfélagið múlbundið Kísildalsmógúlunum.
Tækni og sjálfræði
Í forsendum tækninnar er falið vald og því er þátttaka í tækninni forsenda sjálfræðis. Ekkert landsvæði, þjóðfélagshópur eða þjóð getur verið sjálfráð ef hún þiggur tæknina óumbreytta eins og hún er hönnuð af öðrum. Tæknin er ekki hlutlaus. Þátttaka og möguleikinn til að móta tæknina eftir eigin höfði og hagsmunum er eina leiðin til þess að hún leiði til sjálfræðis.
Eftir því sem tæknin verður stærri hluti daglegs lífs okkar verður hæfni okkar til að taka þátt í henni í æ ríkara mæli það sem veldur því hvort við séum gerendur eða þolendur hennar.
-Arnar Sigurðsson