Stefán Jónsson fréttamaður
Það er eins og hver önnur himnasending þegar Stefáni Jónssyni fréttamanni bregður fyrir á Gömlu gufunni. Taktar hans í fréttamennskunni voru slíkir. Nú síðast heyrðum við hálfrar aldar gömul snjöll viðtöl hans við menn dagsins snemma morguns 1. maí. Viðmælendur Stefáns voru meðal annars Arnþór Jónsson frá Möðrudal, Addi rokk sem kallaður var og Loftur Ámundason, járnsmiður í Landssmiðjunni. Addi rokk lék við hvern sinn fingur, alinn upp á öræfum Íslands og Loftur spilaði með hamrinum lög á steðjann sinn líkt og aðrir spila á hefðbundin hljóðfæri.
Stefán Jónsson var engum öðrum líkur. Eða hver hefur heyrt aðra eins snilld og þegar hann talaði við Einar í Hvalnesi um svipað leyti? Þá hljómaði í víðvarpinu hlátur sem aldrei hefur heyrst slíkur og átti við þá báða. Og fékk vítur frá Útvarpsráði fyrir að útvarpa óviðurkvæmilegum orðum um nafngreinda athafnamenn . Eða viðtalið við Jón Stefánsson í Möðrudal, þar sem hann söng undir eigin organleik. Þar var Garðar Hólm sjálfur lifandi kominn. Eða Eggert þegar honum tókst vel upp. Þessir menn sem hér hafa verið nefndir voru stórkostlegir karakterar, hver á sinn hátt. Spurningin er hvort nokkrir slíkir séu enn finnanlegir á meðal vor. Það er manni til efs.
Það er löngu kominn tími til að safna saman til birtingar snjöllustu viðtölum Stefáns Jónssonar. Því myndu margir fagna. Og fréttamenn dagsins geta mikið af honum lært.
Hallgrímur Sveinsson.