Slysavarnadeildin Vörn
Slysavarnadeildin Vörn
Gunnar Bjarnason, trésmiður á Þingeyri skrifar
Samkvæmt fundarboði séra Sigtryggs Guðlaugssonar var ákveðið að halda opinberan fund til stofnunar slysavarnadeildar fyrir Dýrafjörð, 2. febrúar 1929. Fundinn sátu sextíu og þrír menn, hópur sem samþykkti samhljóða að stofna skyldi slíka deild, og skyldi starfssvið hennar ná frá Sléttanesi að sunnan til Kaplaskerja að norðan og heimili og varnarþing vera á Þingeyri. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu: formaður Guðmundur J. Sigurðsson; gjaldkeri Steinþór Benjamínsson; ritari Nathanael Mósesson. Í lok fundar höfðu allir fundarmenn greitt árgjald sitt.
Á aðalfundi í desember 1930 er rætt um að hvetja til aukinnar sundkennslu, sem þá þegar hafði verið framkvæmd í einhverjum mæli af Viggó Nathanaelssyni, í sjó í svokallaðri Skjólvík og lærðu þar margir sín fyrstu sundtök. Þegar kemur fram undir síðari heimsstyrjöldina virðist koma lægð í starfsemi deildarinnar. Á því árabili er stofnuð slysavarnadeild Mýrahrepps og er starfssvið hennar norðanverður Dýrafjörður, frá Kaplaskerjum inn í Botn í Dýrafirði. Slysavarnadeildin Vinabandið var stofnuð 1949 og starfssvið hennar skyldi vera í Arnarfirði og inn að Meðaldalsá í Dýrafirði. Vegna stofnunar þessara tveggja deilda hafði starfssvið Varnar dregist verulega saman og starfið virðist hafa verið í nokkurri lægð fram um 1950.
Á aðalfundi 17. desember 1950 var séra Stefán Eggertsson kosinn formaður deildarinnar, mikill áhugamaður um slysavarnir og björgunarstörf. Stuttu eftir þessa breytingu á stjórn fær deildin fyrstu aðstöðu sína til geymslu á ýmsum björgunartækjum og áhöldum, á efstu hæð verslunarhúss Kaupfélags Dýrfirðinga. Þetta hleypti nýju lífi í deildina og almennur áhugi á slysavarnamálum jókst verulega. Félagsmönnum fjölgaði og í ljós kom að fjölmargir voru tilbúnir til þess að leggja deildinni lið.
Árið 1975 var stofnuð sérstök björgunarsveit sem hlaut nafnið Björgunarsveitin Dýri og voru stofnaðilar deildirnar Vörn og Vinabandið. Dýri fékk sína eigin stjórn og eigin fjárhag, þó skyldu stjórnir deildanna hafa hönd í bagga með Dýra til að byrja með. Lionsklúbbur Þingeyrar gaf sveitinni vélknúinn gúmmíbát og einnig eignaðist hún vélsleða. Aukinn búnaður til björgunarstarfa kallaði á þörf fyrir eigið húsnæði, svo takast mætti að gæta fengins fjár sem fyrst og fremst var hugsað til björgunar öðrum. Og árið 1976 varð sá draumur að veruleika með því að okkur áskotnaðist vinnuskáli frá Mjólkárvirkjun sem fluttur var frá Mjólká til Þingeyrar og settur niður þar. Þetta hús var vígt með pompi og prakt 15. Júní 1980 og gefið nafnið Stefánsbúð.
Um 1990 var farið að huga að því að byggja nýtt hús þar sem umsvif sveitarinnar voru að aukast, og sumarið 1992 var skrifað undir samning við vélsmiðjuna Héðin um kaup á stálgrindarhúsi. Þetta virtist máttarvöldunum hafa þótt nokkuð mikið í ráðist og tóku í taumana og feyktu Stefánsbúð í sjó fram. Þetta skerpti baráttuanda Varnar og Vinabandsmanna. Þeir sameinuðust í eitt félag undir nafninu slysavarnadeildin Vörn. Húsbyggingin fór á fulla ferð með miklum krafti og flutt var inn með tæki og tól strax og fært þótti.
Gunnar Bjarnason.