Skynlausar skepnur?
Það var hérna einn góðan veðurdag á sauðburðinum í vor, að hún Gul mín eignaðist tvö lömb, grátt og hvítt, sem ekki er í frásögur færandi, komin af séra Guðmundarkyninu.
Jæja. Ég var nú eitthvað að snudda þarna í fjárhúsinu. Þá heyrði ég fekar ámátlegt jarm sem ég tók svo sem ekkert mark á. Svo fór ég að skoða þetta nánar. Þá sá ég að hún Gul stóð yfir öðru lambinu sínu kolföstu í grindunum. Þessu var reddað strax og ekki meira hugsað um það.
Svo skeður það síðar um daginn að sama ámátlega jarmið heyrist. Er þá ekki lambið henna Gular aftur fast í grindunum og á nákvæmlega sama stað. Þetta var auðvitað lagfært eins og skot.
Á miðju sumri skeður það að hún Svört okkar varð afvelta og dó frá tveimur lömbum, hrút og gimbur. Voru þau sett inn í girðingu. Þá vildi svo til að hún Ólafía, geld veturgömul ær, var stödd á svæðinu. Hvað gerir hún? Hún tekur bæði lömbin í fóstur og hafa þau fylgt henni síðan, sbr. meðf. mynd.
Og þetta kalla sumir skynlausar skepnur. Um það má deila. En ætli mannskepnan sé ekki skynlausasta skepna jarðarinnar þegar allt kemur til alls?
Hallgr. Sveinsson Brekku Dýrafirði