A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
06.06.2015 - 16:31 | Kristinn H. Gunnarsson

Sjómenn eiga ekkert og ráða engu

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson.

Nú þegar sjómannadagurinn nálgast er hollt að rifja upp hver staða þeirra er innan sjávarútvegsins. Því er fljótsvarað: þeir eiga ekkert og ráða engu um starf sitt og afkomu. Öll ráð þeirra eru í höndum útgerðarmannsins og sjómenn verða að sitja og standa eins og þeim er sagt, rétt eins og réttlaus og auðsveip vinnuhjú á dögum vistarbandsins. Sjómenn í Bolungavík sóttu rétt sinn til réttra launa fyrir starf stýrimanns og fengu réttmæta leiðréttingu. Því var svarað með því að leigja útgerðina milli félaga í ráðandi eigu sölu aðila og fiskverðið lækkað nánast að geðþótta stjórnendanna. Þannig hafa sjómennirnir verið sviptir launum sínum á nýjan leik, bara eftir annarri leið. Staða sjómanna í þessu almenna umhverfi sjávarútvegsins er algerlega óviðunandi. Einn og sami aðilinn ræður yfir aflaheimildunum, veiðunum , vinnslunni og sölunni.

Þetta fyrirkomulag er alþekkt einokunarkerfi um allan heim og margföld reynsla af því að það leiðir til gengdarlausrar auðsöfnunar fárra, lækkunar á launum starfsmanna og spillingar sem læsir sig um allt þjóðfélagið, því meir sem atvinnugreinin er mikilvægari í þjóðfélaginu.

Í flestum öðrum atvinnugreinum eru þessar staðreyndir viðkenndar sem fylgifiskar markaðshagkerfisins og því hafa verið settar reglur til þess að koma í veg fyrir einokun. Þessum sjónarmiðum er vikið til hliðar þegar kemur að sjávarútveginum. Þar úthlutar ríkisvaldið aflaheimildum þeim á hverju ári til valins hóps gegn gjaldi sem er aðeins brot af því markaðsverði sem útvegsmenn sjálfir hafa ákvarðað.

Nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjaness undirstrikar stöðuna rækilega. Hafnarfjarðarbær höfðaði málið og vildi fá ógilda sölu á nærri 5.000 tonna aflaheimildum úr bænum og vísaði til 12. greinar laga um stjórn fiskveiða. Þar hefur staðið óbreytt frá fyrstu lögum, sem sett voru árið 1990, að sveitarstjórn eigi forkaupsrétt á skipum sem til standi að selja úr byggðarlagi. Dómurinn bendir réttilega á það, sem er skýrt í lögunum, að forkaupsrétturinn nær aðeins til skips en ekki aflaheimilda og hafnaði röksemdum Hafnarfjarðarbæjar.

Þær röksemdir eru hins vegar góðrar gjalda verðar og eiga rétt á sér en Alþingi ákvað að hafa þetta svona og dómurinn bendir einmitt á að það hafi verið flutt frumvarp á Alþingi og þar lagt til að forkaupsrétturinn næði einnig til aflaheimilda og að það frumvarp hafi ekki náð fram að ganga.

Ritstjóra blaðsins er þetta mál vel kunnugt, þar sem hann var flutningsmaður þess á haustdögum 1997. Þá var byrjuð hrina af yfirtöku á vestfirskum útgerðarfélögum af tunguliprum en ófyrirleitnum aðilum sem miskunnarlaust fluttu kvótann úr fjórðungnum. Það er umhugsunarvert að ekki skuli hafa verið gerð bragarbót á þessu ákvæði laganna. Síðasta ríkisstjórn lét sér duga að setja tímabundið ákvæði til þess að hamla gegn stórfelldum kvótaflutningi úr byggðarlagi en það ákvæði hélt hvorki vatni né vindi í Hafnarfirði og er auk þess að renna út í lok ágúst nk. Niðurstaðan er að það eru engar varnir fyrir sjómenn eða aðra. Það er enginn sem gætir hagsmuna þeirra. Öll löggjöfin miðast öll við hagsmuni fáeinna handhafa kvótans. Hinn miklu kvóti sem Flateyringum tókst að ávinna sér með margra ára starfi hvarf sumarið 2007 allur ofan í vasa svo fárra að þá má telja á fingrum annarrar handar. Það sem þessir útvöldu fengu í sinn hlut er líklega um 1.500 milljónir króna. Hjónin sem seldu kvótann í Hafnarfirði eru talin hafa fengið 13.000 milljónir í sinn hlut. Í öðru tilvikinu getur hver útvalinn greitt sér 1 milljón króna á mánuði í eina öld þegar tekið er tillit til vaxtatekna af eigninni og í hinu er hægt að taka út 1 mkr á mánuði næstu 1100 árin. Hvað á þessi gengdarlausa græðgi að þýða? Hvernig halda þessir óseðjandi gróðapungar að hægt sé með þessu lagi að halda þjóðfélaginu saman í sæmilegri sátt og samlyndi?

Sjómönnum þessa lands og fjölskyldum þeirra eru sendar árnaðaróskir með sjómannadaginn með ofangreindri brýningu um baráttu fyrir bættum kjörum og bættri stöðu.

Kristinn H. Gunnarsson

 

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 28. maí 2015

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31