A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
17.07.2012 - 23:19 | Bjarni Guðmundsson

Sandaheyskapur áður fyrr – Áttu ljósmyndir eða frásögn?

Bjarni Guðmundsson
Bjarni Guðmundsson
Lengi hafa þorpsbúar á Þingeyri haldið búfé. Áður fyrr kýr, kindur og geitur en á seinni árum hesta. Þegar atvinnu var mjög skipt eftir árstíðum var gott að hafa nokkurn bústofn heimilunum til tekjudrýginda. Einhvern tímann munu t.d. hafa verið um 500 fjár í plássinu, sem þætti þokkalegt sauðfjárbú í dag. Heys handa bústofninum öfluðu þorpsbúar víða: á túnstykkjum í plássinu, á bæjum við Fjörðinn en ekki síst á Söndum sem fengu það hlutverk eftir að formlegum prestsbúskap lauk þar.

Þingeyrarbændur hófu að rækta stykki á Söndum: á Stekk, Sólvangi, Hollandi, í Skörðum, svo fáein séu nefnd, auk þeirra sem kennd voru við nytjendur sína, t.d. Kitta Jakk, Stjána Bjarnason, Manga á Hól og Sigga Krist.

Er leið fram í júlí komu Sandabændur hver af öðrum upp að Söndum og hófu heyskap á stykkjum sínum, svo sem haldist hefur allt til þessa. Margir slógu tjöldum, lágu jafnvel við. Í æskuminni mínu sé ég ein 8-9 hvít heyskapartjöld þegar flest var, og tveir þrír að störfum á hverju stykki. Fyrst einn eða fáir við slátt með orfi og ljá, en síðan fjölgaði er kom að þurrkun heysins. Fljótlega komu svo sláttuvélar til sögunnar: Brandur í Hólum sló t.d. oft fyrir Þingeyrarbændur, og það gerðu fleiri. Sumir voru vélvæddir, t.d. Eiríkur kaupfélagsstjóri, að ekki sé gleymt honum Gunnari á Nesi sem heyjaði með Farmal-Kubb og Rússajeppa, enda umsvifamikill mjólkurframleiðandi.

Hægt og sígandi þokaðist heyskapur Sandabænda áfram: það komu flekkir og föng, og síðan lanir, jafnvel stórir galtar, er vörpuðu löngum skuggum undan síðdegis- og kvöldsólinni sem óvíða skín bjartar en á Söndum.

Þegar heyið var fullþurrt var komið að því að keyra því heim. Upp úr miðri öldinni minnist ég vörubílanna Litlu Gunnu og Litla Jóns í því hlutverki en einhvern veginn finnst mér að tækifærin hafi verið notuð um helgar þegar vörubílarnir stóru, t.d. hans Tomma í Tröð, komu heim úr vegagerðinni, til þess að svipta heyinu heim og inn í hlöðu.

Heiman frá okkur, á Kirkjubóli, sýndist heyhleðslan á vörubílunum þá stundum undrahá og mikil. Hvílík firn og ósköp af heyi, sem menn gátu hlaðið á bílana, enda fóru þeir ekki mjög hratt niður yfir Skörðin. Er þó ekki annað vitað en flestir hafi komið heilum farmi heim.

Eftir þennan langa formála er komið að erindi pistilsins, sem er að kanna hvort einhver, sem þessar línur les, eigi eða viti af ljósmyndum af Sanda-heyskap Þingeyrarbænda þessara tíma: Ég er þá einkum með í huga árin fram undir 1960.
Eflaust muna ýmsir þennan tíma enn, m.a. einhverjir sem tóku þátt í honum. Ég þigg með þökkum frásagnir þeirra. Þessi tími og þessi verk voru merkilegur kafli í sögu þorpsins, og vel þess virði að minjum um þá sé haldið til haga. Fyrirfram þakkir!

Ég hef netfangið bjarnig@lbhi.is og símann 894 6368.


Bjarni Guðmundsson frá Kirkjubóli

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31