A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
10.04.2018 - 09:10 | Blábankinn á Þingeyri

Óvissa, ekki áhætta

Fyrir örfáum árum var vörumerki filmuframleiðandans Kodak öllum þekkt. Í næstum hverri einustu sjoppu, hvar sem er í heiminum, var hægt að kaupa filmur í gulrauðum pökkum og sjaldan var langt í næstu framköllunarstofu, þar sem „Kodak augnarblik“ voru prentuð í búnka af litmyndum sem síðan var raðað inn í fjölskyldualbúm.

Það kom þó fáum á óvart þegar þessi áður alþjóðlegi risi sótti um gjaldþrotaskipti árið 2012. Öllum mátti vera þá ljóst að eftirspurn eftir filmum væri lítil þegar stafrænar myndavélar, jafnvel símar, gátu tekið og framkallað myndir, og svo deilt þeim með vinum og ættingjum gegnum netið á augabragði.

Kodak hafði ekki náð að halda í við stafræna myndatöku, tækni sem gerði út af við áður blómlegt viðskiptamódel fyrirtækisins. Hinn kaldhæðni hluti sögunnar er, að það var innan veggja Kodak sem stafræn myndataka var fundin upp.

Árið 1975 sýndi ungur verkfræðingur að nafni Steve Sasson stjórnendum hjá fyrirtækinu nýja uppfinningu sem hann hafði unnið að: Fyrstu stafrænu myndavélina.

„Árið 1975 sýndi ungur verkfræðingur að nafni Steve Sasson stjórnendum hjá fyrirtækinu nýja uppfinningu sem hann hafði unnið að: Fyrstu stafrænu myndavélina“.


Tækið gat vistað mynd á segulbandsspólu sem svo var hægt að horfa á í sjónvarpi með afspilunargræju. Myndgæðin voru ekki upp á marga fiska og notkunarmöguleikarnir takmarkaðir. Það er því skiljanlegt að yfirmenn Kodak, sem allir þurftu að taka skynsamar og ábyrgar ákvarðanir varðandi framtíð fyritækisins, hafi ekki veðjað á þessa leið, þrátt fyrir að ungi verkfræðingurinn hafi fullvissað þá um að gæðin væri hægt að betrumbæta með tímanum.

Til hvers að breyta því sem virkar?

Það er auðvelt að gagnrýna skammsýni stjórnendanna eftir á, að hafa ekki nýtt sér þessa miklu uppgötvun. En það verður að gæta sanngirni: Hvernig máttu þeir vita að 15 árum síðar færu tölvur að verða almenningseign? Eða að enn síðar myndi þær verða tengdar hvor annarri í gegnum internetið, og rata svo í vasa fólks með farsímum? Það sem meira er, að á þeim tíma hafði litafilman verið í þróun lengi og náð miklum árangri. Almenningur gat með auðveldu móti tekið fallegar myndir, látið framkalla þær að ódýran hátt og geymt þær með þæginlegum móti. Hvað var eiginlega að þessum fínu ljósmyndafilmum sem fyrirtækið hafði lagt svo mikla vinnu í að þróa, þénaði vel á og löng og góð reynsla hafði komist á?

Í þessari mjög svo einfölduðu frásögn stóð fyrirtækið frammi fyrir tveimur kostum: Vissu eða óvissu. Að halda áfram á sömu braut og áður, sem það þekkti og hafði gefist vel, eða ana út  tilraunir og fjárfestingar sem enginn gæti spáð um hvernig tækist á endanum. Það kann að hljóma eins og þversögn, en oftar en ekki er valið að halda sig við hið þekkta og víkja ekki frá þeim vegi sem gefist hefur vel, á endanum áhættasamari en hinn. Það varð allaveg raunin fyrir Kodak sáluga.

Okkar eigið Kodak

Heimurinn stendur aldrei í stað. Stundum getur það skynsamasta í stöðuni verið að ana út í óvissu. Stundum er vissan það hættulegasta sem hægt er að tileinka sér. Næsta hugmynd, tilraun eða verkefni sem einhver sýnir okkur gæti verið eins og stafræna vélin hans Sassons: Ófullkomið, hæpið, skrýtið og framandi. En svo breytist heimurinn. En ef við tökum ekki áhættuna á að prófa af og til, þá gætum við endað eins og Kodak. Það eina sem við getum vitað með nokurru vissu er að allt er breytingum undirorpið, og okkar eigin stöðugleiki verður á endanum afturför miðað við umheiminn í kringum okkur.

-Arnar Sigurðsson

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31