A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
01.08.2012 - 17:04 | Hallgrímur Sveinsson

Orðsnilld sálusorgarans í Vatnsfirði

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 2 »
„Já, nei, sko, sjáðu til, væni. Stór hluti af þessu liði þarna á spítölunum er þar vegna þess að það hefur étið yfir sig. Og svo kýs það íhaldið góði!" Sá sem svo mælti fyrir nokkrum árum var enginn annar en þáverandi sóknarherra til Vatnsfjarðaþinga, síra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði. Óvíst er hvort stórum vanda íslenska heilbrigðiskerfisins í dag hafi verið lýst betur í jafn fáum orðum. Ætli það sé ekki mikið til í þessu hjá okkar gamla, góða og orðsnjalla prófasti, þó það sé kannski ekki allt íhaldinu að kenna! Og má ekki vel heimfæra þessa speki sálusorgarans við ysta haf upp á Vesturlönd, almennt séð?

Sögurnar af sálusorgaranum í Vatnsfirði, svokallaðar Baldurssögur, eru margar þrungnar visku og mikilli mannþekkingu þegar grannt er skoðað. Það fer ekki á milli mála. Fjöldinn allur af þeim er sannleikanum samkvæmt, fótur fyrir enn öðrum og svo eru hinar sem eru tilbúnar af gárungum, en þær eru fæstar. Hvað segja menn um þessa:

„Síra Baldur var eitt sinn að hugga sóknarbarn sitt, stúlku, sem var ákaflega hnuggin yfir brotthlaupi unnusta síns. Prófasturinn spurði hina óhamingjusömu stúlku hvar kærastinn hefði verið í pólitík. Hún sagðist halda að hann væri framsóknarmaður, en slíkir hafa nú aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá síra Baldri. Stúlkan var þarna í öngum sínum, hágrátandi. Hirðirinn segir þá við hana með sérstakri áherslu: „Ja, sko góða mín. Það er með suma karlmenn í ástamálum eins og framsóknarmenn í pólitíkinni. Þegar kemur að því að efna loforðin, þá láta þeir sig hverfa."

Fyrst svona lá í málinu, þá segir sig sjálft að það var hægt að líta á það frá ýmsum sjónarhornum. Stúlkan tók því gleði sína á ný og nokkru síðar var hún auðvitað kominn með nýjan pilt upp á arminn, líklega íhaldsmann eða bara kommúnista. Ef þetta er ekki sálusorgun af fyrstu gráðu vitum vér ekki svo gjörla hvað það orð táknar.

Sannleikurinn er sá að það er löngu kominn tími til að einhver góður maður geri fræðilega úttekt á síra Baldri og svokölluðum þjóðsögum um hann. Hvernig hafa þær og aðrar slíkar orðið til og hvaða gildi hafa þær haft fyrir innbyggjara Vestfjarða? Hér þarf rannsóknar við. Margur hefur hlotið háskólagráðu fyrir minna!

Hallgrímur Sveinsson.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31