15.06.2010 - 16:58 |
Opið bréf til Dýrfirðinga
Ég var á báðum áttum um hvort að ég ætti að beina þessum orðum til barna, unglinga eða til foreldra/fullorðna. Ég held að þetta sé vel til þess fallið að sem flestir lesi, hugsi og ræði þessi málefni. Það þarf að taka afstöðu til þess, hvernig við
viljum ganga um og hafa hlutina hér á Þingeyri. Það þarf að ræða um það sem er við hæfi og hvað ekki. Hvenær er leikur, leikur? Hvenær er verið að vinna skemmdarverk? Er það yfirleitt í lagi að ganga illa um hluti og leiktæki, af því að þau eru í eigu annarra? Svo má alveg hugsa um hvar sá eignarréttur liggur, þar sem Ísafjarðarbær er ekkert annað en við, samfélagið og þar með íbúarnir sem hér búa. Ég er því hissa á því þegar ég mæti til vinnu að sjá hversu illa er farið með þessa lóð, sem er mikið notið bæði af börnum á leikskólaaldri og eldri krökkum héðan og síðan af þem sem koma að, sem er í góðu lagi, ef það er virt að leiktækin hér eru hönnuð fyrir börn undir sex ára aldri og að það væri gengið eðlilega um lóðina.
Það sem ég er að reyna að segja er að það er í góðu lagi að nýta og njóta þessarar lóðar, málið er hins vegar, að það er í sífellu verið að vinna skemmdarverk á henni. Það eru einstaklingar sem virðast ekki getað notið lóðarinnar eins og hún
kemur fyrir, heldur þurfa að rífa upp grasþökur, brjóta flöskur og skemma lása svo fátt eitt sé nefnt. Nú er svo komið að ítrekað, núna í júní mánuði 2010, hefur einhver/einhverjir reynt að kveikja eld inni í leiktækjunum. Matjurtagarðurinn sem börnin eru að rækta hefur verið skemmdur, þessum fáu matjurtum sem settir voru niður hefur verið dreift um alla lóð og tré rifin upp með rótum. Sígarettustubbar, tyggjóklessur, rusl og drasl, finnast hér aftur og aftur svo ekki er alltaf að ræða ung börn í þessu sambandi. Svona umgengni leiðir náttúrulega til þess að prýðin endist ekki lengi, sjarminn fer af og hlutir drabbast niður, tala nú ekki um hættuna sem fylgir því að fikta með eld og ekki er nú skemmdarfýsn álitlegur kostur að bera. Það þarf að læra að bera virðingu fyrir umhverfinu, hún kemur ekki af sjálfu sér. Þetta eru hreinlega skemmdarverk og mjög alvarlegt mál, það er markvisst verið að eyðileggja, skemma og jafnvel að kveikja í. Það þarf að taka á þessu.
Ég vil hvetja alla sem þetta lesa og hafa einhverja sómatilfinningu að hjálpa til við að fylgjast með, ræða opinskátt um virðingu og samfélagslega ábyrgð hér. Við þurfum að standa saman og til að halda vörð og vernda það sem búið er að gera hér á Þingeyri. Byggjum frekar upp í stað þess að brjóta niður og fræðum börnin.
Kveðja,
Elsa María Thompson
Leikskólastjóri