A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
11.08.2010 - 11:51 | Hallgrímur Sveinsson og Hreinn Þórðarson

Opið bréf að vestan

Hrafnseyri, mynd: jonsigurdsson.is
Hrafnseyri, mynd: jonsigurdsson.is
Á næsta ári munum við Íslendingar minnast 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar með ýmsum hætti. Meðal annars á að leggja nýja heimreið og fjölda bílastæða á fæðingarstað Jóns, Hrafnseyri við Arnarfjörð, í minningu hans.
Því miður verður að segjast alveg eins og er, að umrædd framkvæmd er að okkar dómi algjörlega óþörf og gott dæmi um það þegar opinberir aðilar kasta fjármunum alþýðu beint út um gluggann, eins og Jón Sigurðsson hefði sennilega orðað það sjálfur.
Ekkert bendir til annars en núverandi heimreið að Hrafnseyri, með lítils háttar lagfæringum, geti þjónað staðnum vel næstu árin, miðað við óbreyttar forsendur. En svo virðist sem fæðingarstaður forsetans eigi að vera mannlaust eyðibýli eins og verið hefur síðastliðin fimm ár, nema rétt yfir hásumarið. Því er vandséð hvaða tilgangi það á að þjóna að verja miklum fjármunum í nýja heimreið.
Samkvæmt teikningu Vegagerðarinnar, dags. 15. 07. 2010, á hin nýja heimreið, sem örugglega verður malbikuð, að brjóta upp landsvæði í miðjum hvamminum sem bærinn stendur í og er stórkostlegur frá náttúrunnar hendi. Auk þess munu spillast mörg ræktuð tún á þeirri leið.
Þannig háttar til á Hrafnseyri, að þegar þörf er á fleiri bílastæðum á sumrin en vant er, svo sem eins og 17. júní, þá geta gestir lagt bifreiðum sínum á svokallaðri Kirkjuflöt og allir ánægðir. Á stærri Hrafnseyrarhátíðum er hægt að leggja hundruðum bifreiða fyrir neðan bæinn og þá ganga gestir stuttan spöl heim á staðinn. Þetta gerist á 10 til 20 ára fresti.
Miðað við það sem hér hefur komið fram, leggjum við eindregið til að þeim fjármunum sem verja á í nýja heimreið og bílastæði á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar verði varið til þess að lagfæra vegina í firðinum hans, Arnarfirði. Ekki veitir af.
Þetta bréf er skrifað til að vekja athygli á óþarfa peningaaustri úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar. Spyrja má hvort við Íslendingar ættum ekki að stíga á stokk í tilefni af afmæli Jóns forseta og strengja þess heit að hætta öllu óþarfa bruðli. Það mundi honum örugglega þykja góð afmælisgjöf.  

                                                      Hallgrímur Sveinsson

                                                      Hreinn Þórðarson


*Hallgrímur Sveinsson bjó á Hrafnseyri í 40 ár og Hreinn Þórðarson er bóndi á Auðkúlu í Arnarfirði.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31