Óargadýrin í Vestfirsku Ölpunum
° Hér áður og fyrr er hrepparnir voru og hétu, var lögð mikil áhersla á grenjavinnslu og minkaleit. Og vei þeim oddvita sem ekki stóð almennilega að þeim málum. Hann var bara rekinn í næstu kosningum!
° Í Vestfirsku Ölpunum ganga nú minkur og tófa ljósum logum. Ekki sér högg á vatni þó varpbændur og búalið þeirra séu á ferðinni allan sólarhringinn, jafnvel gráir fyrir járnum. Hreinn hreppstjóri á Auðkúlu í Arnarfirði stendur vaktina allar nætur. Hann er búinn að ná í marga minka og refi í vor. Um daginn var hann að eltast við tófu á Tjaldanesi, án árangurs. Svo fór hann að sofa undir morgun. Um tvöleytið daginn eftir vaknaði hann og fór að klæða sig. Þegar hann var kominn í nærbuxurnar, varð honum litið út um svefnherbergisgluggann. Þá sá hann að melrakki var kominn í kurteisisheimsókn á hlaðið um hábjartan dag sem áður segir. Hreinn eins og byssubrenndur út, grípur með sér hólkinn og þurfti þá ekki að spyrja að leikslokum.
° Friðbert í Hólum og varðmenn hans eru á ferli allar nætur að verja varpið. Stjáni í Miðbæ má ekki hreyfa sig af bæ þá er hann kominn með mink eða tófu. Sama er með Valda á Sveinseyri og fleiri og fleiri. Guðrúnarnar á Brekku sáu hvíta tófu fram á Brekkudal í fyrrinótt, mannlausar, byssulausar og allslausar. Aðra sáu þær í Brekkumýrum sömu nótt og þá þriðju á sama tíma í vatnsveituskurðinum hjá Magnúsi Helga Bocchiakappa. Hólafeðgar eins og hvítir stormsveipar á svæðið, en ekkert dugði. Bjössi á Ósi og Grímur á Eyri sáu stóra hvíta tófu, sennilega stegg, á leið sinni í Arnarfjörð um daginn. Var á stærð við hálfvaxinn kálf og hvarf á fjöll upp þegar byssumenn mættu. Svona er þetta hvert sem litið er. Vaðandi tófa og minkur um allt. Meira að segja hreiðraði minkur um sig nýlega í burstabæ Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri.
° Það vita allir að tófan á sinn þegnrétt á landi hér. En það þýðir ekki að við eigum að láta hana vaxa okkur yfir höfuð. Hún má ekki taka völdin í náttúru Vestfjarða. Og minkurinn. Við nefnum hann nú ekki ógrátandi hér fyrir vestan. Ef við látum þessi óargadýr hafa frjálsar hendur þarf ekki að spyrja að leikslokum. Það er ekki af mannvonsku sem æðarbændur verja vörp sín, sem mikla vinnu og natni þarf til að koma upp. Ef þeir myndu láta það ógert þyrfti ekkert að spyrja um æðardún hér vestra, þá merkilegu náttúruafurð. Minkur og tófa geta nefnilega splundrað stóru æðarvarpi á örskömmum tíma. Nauðsynlegt er að skoða hversu miklar tekjur menn hér vestra hafa af æðarræktinni. Beinharður gjaldeyrir fyrir gjaldeyrishungraða þjóð. Öruggt er að þær skipta milljónum króna á ári bara fyrir Ísafjarðarbæ. Er það ekki almenn skynsemi að verja slíka tekjustofna?
° Í dag leggja sveitarstjórnir og önnur yfirvöld mikla áherslu á ferðamenn. Það er ágætt. En svo virðist líka sem mikil áhersla sé lögð á að hafa sem mest af mink og ref þeim til yndisauka þar sem leið þeirra liggur um. Annars væri öðruvísi staðið að málum en gert er. Það þarf greinilega að taka vinnubrögð gömlu hreppsnefndanna upp aftur í sambandi við óargadýrin. Það verður að vera jafnvægi í náttúrunni ef vel á að vera. Ef ekkert verður að gert, stefnir hraðfara í að næst á eftir kvótamálum verði margumrædd dýr merkurinnar eitt af stóru málunum hér á Vestfjörðum.
Hallgrímur Sveinsson