13.07.2012 - 06:06 | Hallgrímur Sveinsson
Niður með bankaleyndina!
Hallgrímur Sveinsson.
.
Niður með bankaleyndina!
.
Margt er gott á gömlu Gufunni. Til dæmis fréttaþátturinn Spegillinn. Um daginn kom þangað Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í athyglisvert viðtal við Gunnar Gunnarsson. Gunnar byrjaði viðtalið á þessa leið:
- Allt upp á borðið. Gegnsæ stjórnsýsla. Það var krafa dagsins í búsáhaldabyltingunni, en er leyndarhyggjan enn allsráðandi?
Jóhann Hauksson svaraði m. a. á þessa leið:
- Þetta er vandasamt. Það eru jafnvel uppi kröfur um að afnema bankaleynd og ég tel mig vita það að það verður ekki gert. Það er ekki gert annars staðar.
Síðar í viðtalinu sagði upplýsingafulltrúinn:
- Það verður að vera gegnsæi. Annars fer illa. Leyndarhyggjan er einhvers konar sjúkdómseinkenni sérhagsmunavörslunnar.
Svo mörg voru þau merkilegu orð gamla fréttahauksins - og reyndar voru þau miklu fleiri.
Spyrja verður: Ætlar ríkisstjórn fólksins virkilega að lúffa fyrir þeirri eiturspúandi ófreskju sem kallast bankaleynd?
Þessi gamlkunna gáta var lögð fyrir hóp manna á dögunum:
Hvað er það sem hoppar og skoppar yfir Heljarbrú / með mannabein í maganum? Og gettu nú.
Ekki voru það nú allir sem gátu svarað þessu. Einn sagði: Þetta er auðvitað bankaleyndin! Þá var hlegið, en öllu gamni fylgir nokkur alvara, sem kunnugt er.
Nú er ljóst, að í virðulegum erlendum stórbönkum og fjármálafyrirtækjum ríkir spillingin ein. Svo til á hverjum einasta degi berast fréttir af fjármálamisferli á þeim vettvangi. Það liggur á borðinu, að það eina sem þessir ribbaldar og eiginhagsmunamokarar myndu skilja væri afnám hinnar skuggalegu bankaleyndar.
Styrmir Gunnarsson segir í Mogganum: Rekstur og starfsemi banka hefur augljóslega farið út um víðan völl í algeru stjórnleysi. Ögmundur Jónasson sagði í miðri búsáhaldabyltingu: Ekki er nóg með að búið sé að setja bankana á hausinn heldur þjóðfélagið allt - og samt leyfa fjármálamenn sér að tala um það sem mannréttindi að sveipa gjörðir sínar leyndarhjúp.
Yfirleitt eru það einhverjar tilviljanir sem ráða því hvort upp kemst um hina annars ósnertanlegu fjármálaglæpamenn nútímans, sem stela öllu steini léttara sem þeir geta. En hvernig ætli sé með spillinguna í íslenska bankakerfinu? Á hvaða vegi skyldi hún vera í dag? Almenningur, ásamt örfáum sérvitringum, segir að við stefnum hraðbyri í næsta bankahrun. En það er ekkert að marka almenning, eins og kunnugt er.
Hvað merkir orðið bankaleynd? Hin gamla íslenska orðabók Menningarsjóðs segir það skýrum stöfum: Banki er peningastofnun. Að leyna er að dylja, hylja, fela, launung, dul og fleira í þeim dúr.
Þar höfum við það. Í skjóli þessarar launungar fara menn sínu fram. Það byrjar á svokölluðum eiganda bankans. Hann gerir það sem honum sýnist. Skarar miskunnarlaust eld að eigin köku. Bankastjórinn gerir það sama. Hann mútar á báðar hendur og ekki síst svokölluðum endurskoðendum.
En þetta er náttúrlega leyndarmál.
Svo kemur eiturlyfjabaróninn með alla sína vel fengnu peninga, sem hann hefur unnið fyrir í sveita síns andlitis, og lætur leggja þá inn í bankana, eða þar sem þægilegra er: Skattaskjólin í heitu höfunum. Fyrir honum er borin mikil virðing, sem og öðrum sem peninga hafa milli handa. En það má ekki segja frá!
Og svo eru það hinir heilögu framkvæmdamenn og félög sem vaða um allt og veifa fjármunum sem eru auðvitað oft illa fengnir. Það vita bankastjórarnir. En þeir segja ekki frá og bera fyrir sig bankafeluleikinn skemmtilega.
Bankaleyndin er sá Heljarslóðarvettvangur sem alls ekki má hrófla við, hvað sem tautar og raular, að dómi sumra sérfræðinga. Íslendingar geta ef þeir vilja farið á undan öðrum þjóðum og breytt þessum launungarmálum í bönkunum í áföngum. Það mætti byrja á því að rannsaka bankareikninga sem bólgna allt í einu út án þess hægt sé að koma auga á heiðarlega ástæðu þess. Og svo eru þeir sem fá að skulda eins og þeim sjálfum sýnist.
Hér gæti Bankaeftirlitið komið við sögu eftir ábendingar heiðarlegra bankastarfsmanna. Eða kannski það sem best væri: Í öllum bönkum væri starfandi sérstök nefnd venjulegra starfsmanna sem hefði með slíkt innra eftirlit að gera.
Vilji og svolítill kjarkur er allt sem þarf, eins og fyrri daginn.
Hallgrímur Sveinsson.