A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
19.11.2016 - 10:30 | Vestfirska forlagið,Séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir

Minningarorð - Guðrún Nanna Sigurðardóttir prestsfrú á Þingeyri

Guðrún Nanna Sigurðardóttir (1925 - 2015)
Guðrún Nanna Sigurðardóttir (1925 - 2015)
« 1 af 4 »

Þingeyrarvefurinn hefur alla tíð verið óhræddur við að taka upp nýjungar fyrir lesendur sína. Að þessu sinni er nýbreytnin fólgin í því að byrja að birta kveðjuorð eða útfararræður sem prestar hér vestra hafa flutt í kirkjum við útfarir. Prestar leggja oft mikla vinnu í minningarorð sem þeir flytja við hinstu kveðju. Í þeim er að jafnaði mikill fróðleikur sem hvergi er annarsstaðar að finna.  

   Við höfum rætt þetta við ýmsa presta, nú síðast þau hjón Guðrúnu Eddu, okkar ágæta fyrrum sóknarprest í Þingeyrarprestakalli og próf. Einar Sigurbjörnsson. Niðurstaða okkar er sú að hefja slíkar birtingar hér á Þingeyrarvefnum. Hversu oft slíkt gerist verður tíminn að leiða í ljós.

   Það er okkur mikill heiður að fá að hefja þennan þátt á minningarorðum sem séra Guðrún Edda flutti yfir okkar ástsælu prestsfrú á Þingeyri, Guðrúnu Nönnu Sigurðardóttur, í Hjallakirkju í Reykjavík. 30. október 2015. Í dag, 19. nóvember er einmitt afmælisdagur hennar.

                                               Þingeyrarvefurinn.   

 

Minningarorð

Guðrún Nanna Sigurðardóttir

Útför frá Hjallakirkju

föstudaginn 30. október 2015

 

Náð sé með yður og friður frá honum,

sem er og var og kemur. (Opb. 1.4)

 

Í 4. Davíðssálmi stendur skrifað:

 

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna,

því að þú einn, Drottinn,

lætur mig búa óhulta í náðum. (4.9)

 

Það er mikið traust til Guðs, sem býr í þessum orðum sálmaskáldsins forna, sem veit og treystir því, að Drottinn lætur sína búa óhulta í náð sinni, þeir geta hvílst öruggir í friði, því að Drottinn Guð varðveitir þá.

Náð Guðs birtist okkur í kærleika hans, er hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir, hafi eilíft líf.

Von eilífs lífs fylgir okkur allar stundir lífsins, því að lífið sjálft þiggjum við frá skaparanum og í skírninni tekur Guð okkur að sér sem sín börn og gerir okkur að erfingjum eilífs lífs, þess lífs og þess óforgengileika, sem Jesús Kristur hefur opinberað okkur með upprisu sinni frá dauðum.

 

Við megum fela okkur náð hans og miskunn dag hvern og treysta því, að hann er með okkur allar stundir, einnig þegar hann tekur okkur aftur til sín.

 

Önnur bæn úr Davíðssálmum kemur í hugann nú - þeim 43. sem er eins og yfirskrift yfir líf þeirrar góðu og mætu konu sem við í virðingu og þökk kveðjum hér í dag.

 

Sálmaskáldið biður til Guðs:

Send ljós þitt og trúfesti þína

þau skulu leiða mig.

Þannig var Guðrún Nanna Sigurðardóttir í lífi og starfi.

Ljós Guðs og trúfesti leiddu hana alla tíð.

Hún fæddist í Vogi í Hraunhreppi á Mýrum 19. nóvember 1925.

Foreldrar hennar voru Sigurður Einarsson og Guðrún Árnadóttir sem þar ráku búskap.

Dætur þeirra voru tvær

Rannveig Sigríður og Guðrún Nanna.

Í Vogi stóð mikið íbúðarhús úr timbri. Það var áður amtmannshús sem stóð á Arnarstapa en var tekið sundur, flutt og byggt upp í Vogi. Nú er reyndar búið að flytja það aftur að Arnarstapa.

Vogur eins og nafnið ber vitni um stendur við vog við Faxaflóa og víðsýnt er til allra átta, svipmikil fjöll í fjarska og eyjar, sker og hafið framundan.

Þarna ólst Guðrún upp og gekk í farskóla sveitarinnar.

Ung fékk hún áhuga á orgelleik. Í fyrstu var hún að mestu sjálfmenntuð en naut svo um tíma kennslu Páls Ísólfssonar og varð organisti í sóknarkirkju sinni, Akrakirkju,  aðeins 16 ára gömul.

Hún var virk í félagsstarfi í heimahögum og var í stjórn ungmennafélagsins Björns Hítdælakappa. Hún var hestakona og átti hest, hryssu sem Geira hét.

Með farskólaprófið sitt tók Guðrún inntökupróf í Samvinnuskólann árið 1944, flaug inn og lauk prófi þaðan með láði árið 1946. Henni stóð til boða starf  í Reykjavík en valdi að koma heim í Vog og hjálpa til við bústörfin.

Þá bjó í Vogi í skjóli foreldra hennar sóknarpresturinn séra Stefán Eggertsson, ungur og einhleypur. Prestssetrið á Staðarhrauni var leigt út og í Vogi bjó séra Stefán þau sex ár sem hann þjónaði Staðarhraunsprestakalli.

Guðrún stundaði nám í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni veturinn 1948 - 1949 og lauk því námi með ágætiseinkunn. Þá voru þau séra Stefán heitbundin og var hún að búa sig undir það að verða prestskona sem í raun varð ævistarf hennar og hún var sátt við og sönn í alla tíð.

Séra Stefán og Guðrún gengu í hjónaband 29. maí 1950 og fluttust stuttu síðar vestur á Þingeyri við Dýrafjörð þar sem honum hafði verið veitt Sandaprestakall.

Það voru mikil umskipti að koma vestur í Dýrafjörð úr víðáttunni syðra en þau hjónin festu þar rætur og fannst Guðrúnu Dýrafjörður fegurstur allra fjarða. Við fórum eitt sinn saman í bílferð yfir í Arnarfjörð, þetta var fyrsta sumarið mitt fyrir vestan. Við fórum í berjamó út á Baulhúsaskriður og í heimsókn til vinanna góðu á Hrafnseyri, Guðrúnar Steinþórsdóttur og Hallgríms Sveinssonar. Það var komið kvöld síðla í ágúst þegar við komum tilbaka og sólin var að hníga niður í miðjan Dýrafjörð, þá ókum við út fyrir Sandafell og niður á Sandasand, það er ógleymanleg stund og mér varð alltaf hugsað til Guðrúnar þegar ég sá þessa sömu sjón, árvisst nokkra daga í apríl og ágúst, alltaf jafn mikið sjónarspil og náttúruupplifun, fjöllin, hafið, sólin og Guð yfir og allt um kring.

Guðrún var mér mikill styrkur með vináttu sinni.

Séra Stefán Eggertsson var einn af níu prestum sem vígðir voru 18. júní 1944, svokallaðir lýðveldisprestar, fögur gjöf til íslensku kirkjunnar í hinu unga lýðveldi.

Þessir prestar urðu allir máttarstólpar í sínum byggðarlögum og má svo sannarlega segja það um séra Stefán Eggertsson og ekki síður eiginkonu hans Guðrúnu Sigurðardóttur.

Ung og bjartsýn, dugleg og starfsfús hófust þau handa við verkefnin sem þeirra biðu. Guðrún gekk strax til liðs við ýmis  félagsmál á Þingeyri, gekk í Kvenfélagið Von, var formaður kvenfélagsins í allmörg ár og gerð að heiðursfélaga á 90 ára afmæli þess árið 1997. Ég hef verið beðin að koma á framfæri góðum kveðjum og þakklæti fyrir vel unnin störf frá kvenfélagskonum á Þingeyri. Leiklistaráhugi var á Þingeyri á þessum tíma og tók Guðrún þátt í leiklistarstarfi, lék í leikritum ma í leikritunum frænku Charlies og Skyggna vinnukonan.   Hún spilaði undir söng á skemmtunum td á jólatrénu í kvenfélagshúsinu úti í Haukadal, á stofuorgelið sitt sem búið var að flytja úr prestshúsinu í Rússajeppanum frá Vésteinsholti út í Haukadal.

Sameiginlegt áhugamál þeirra hjónanna var skógrækt, þau voru í Skógræktarfélagi Dýrafjarðar sem á skógræktarreiti bæði inni í botni Dýrafjarðar og Brekkudal og fóru þau í gróðursetningarferðir. Þau eiga heiðurinn af trjáræktinni kringum prestshúsið á Þingeyri þar sem þau voru einnig með matjurtagarð. Kartöflur ræktuðu þau á öðrum stað.

Þá starfaði Guðrún á skrifstofu Kaupfélags Dýrfirðinga í nokkur ár.

Guðrún tók virkan þátt í öllum verkum sem séra Stefán tók sér fyrir hendur bæði í kirkjustarfinu svo og öllum þeim samfélagsmálum sem hann hafði brennandi áhuga á. Má þar fyrst og fremst nefna slysavarnir og samgöngumál.

Séra Stefán gekkst fyrir því að á vegum Slysavarnarfélagsins var sett upp talstöð inni á skrifstofu í prestshúsinu sem nýttist vel til öryggisþjónustu við skip, báta, bíla og flugvélar og varð Þingeyri Radíó fljótlega landsþekkt.

Það má geta þess að hátalarar frá talstöðinni voru víða í prestshúsinu á Þingeyri ma í svefnherbergi hjónanna og á baðherbergi og gat sumum brugðið sem þangað þurftu að leita, þegar allt í einu drundi:

Þingeyri Radíó ; Þingeyri Radíó.

Séra Stefán vann það þrekvirki að fá byggðan flugvöll á Þingeyri fyrir uþb 50 árum og síðar reistu heimamenn honum fagurt minnismerki sem stendur við flugvöllinn og var afhjúpað árið 1984 að þeim Guðrúnu og fjölskyldu hennar viðstöddum.

Guðrún lék undir söng í sunnudagaskólanum, söng í kirkjukórnum og spilaði á stofuorgelið við athafnir heima í stofu í prestshúsinu. Hún var organisti í Þingeyrarkirkju í íhlaupum en tók við starfinu eftir að organistinn flutti upp úr 1970.

Hún átti stóran þátt í því að til Þingeyrarkirkju var árið 1973 keypt lítið en hljómfagurt 4 radda pípuorgel sem áður var í Háteigskirkju í Reykjavík.
Þá annaðist hún ásamt Guðrúnu Markúsdóttur, sinni góðu vinkonu til meir en 60 ára, - þrif í Þingeyrarkirkju í fjöldamörg ár og fengu þær nöfnurnar sérstakt hrós í biskupsvísitasíu þar sem segir: Ræsting er til fyrirmyndar.

 

Hún bar mikla umhyggju fyrir Þingeyrarkirkju alla tíð og samgladdist söfnuðinum innilega sumarið 2004 þegar lokið hafði verið við að endurbæta kirkjuna og var með okkur fyrir vestan þá hátíðisdaga og góða og rausnarlega gjöf færði hún ásamt börnum sínum Þingeyrarkirkju á 100 ára afmælinu árið 2011.

Nú mætti álíta að í litlu þorpi vestur á fjörðum væri ekki mikið um að vera en það var öðru nær. Það var mikið umleikis hjá þeim séra Stefáni og Guðrúnu prestsfrú eins og hún var alltaf kölluð í mín eyru þegar á hana var minnst.

Mikill gestagangur var í tengslum við prestsstarfið en ekki síður í tengslum við öll störfin sem vörðuðu almannaheill. Svo varð að vakta talstöðina þó ekki væri það skylda, færa bókhaldið fyrir flugvöllinn, gera veðurathuganir fyrir flugið og færa kirkjubókina, það gerði Guðrún einnig með sinni einstaklega fallegu rithönd.

Þau höfðu stundum leigjendur og tóku á móti næturgestum til lengri eða skemmri tíma, bæði eigin gestum og fólki sem kom til vinna ýmis verkefni á Þingeyri.

En órofa tryggðabönd hnýttust eitt sumarið fyrir rúmum 50 árum þegar lítil stúlka kom til sumardvalar hjá þeim hjónum. Þetta var Hjördís Guðmundsdóttir sem síðan hefur kallað Guðrúnu fóstru sína.

Aufúsugestir voru ma dr. Róbert Abraham Ottósson söngmálastjóri sem þjálfaði kirkjukórinn og hjónin Jón og Greta Björnsson sem héldu til í prestshúsinu meðan á málun og skreytingu Þingeyrarkirkju stóð í tilefni af 50 ára afmæli kirkjunnar árið 1961.

Þau Guðrún og séra Stefán eignuðust tvö börn þau Sigrúnu og Eggert

Sigrún er lífeindafræðingur og gift Guðjóni Scheving Tryggvasyni verkfræðingi og eiga þau þrjú börn.

Elst er Hildur, maki hennar er Ýmir Vésteinsson.

Börn þeirra eru þrjú – tvíburarnir Óðinn og Védís og yngri bróðir þeirra Ægir.

Svo er Stefán, fyrrverandi maki er Rut Sigurðardóttir og eiga þau þrjú börn Úlf, Rán og Kolku.

Yngstur er Steinar, hann er ókvæntur og  barnlaus.

Eggert yngra barn Guðrúnar og séra Stefáns er rafeindavirki. Hann er ókvæntur og barnlaus.

Séra Stefán Eggertsson lést 10. ágúst 1978 langt um aldur fram tæplega 59 ára gamall. Þá um haustið fluttist Guðrún suður til Reykjavíkur.

Missir sóknarbarna prestakallsins var mikill.

Fljótlega var Guðrún ráðin til starfa á Biskupsstofu.

Það gerði sá biskup sem þekkti til starfa hennar á Þingeyri þó flest væru ólaunuð þá vissi hann að hún sinnti öllu sem henni var trúað fyrir af góðum gáfum, nákvæmni, virðingu, gleði og kærleika. Þessir eiginleikar fylgdu henni alla tíð og þó hún yrði sjötug og búin að starfa í 17 ár í þjónustu fjögurra biskupa, þá  leitaðist Biskupsstofa eftir starfskröftum hennar í ýmis trúnaðarverkefni eins lengi og hún hafði heilsu til.

Kórsöngur var eitt helsta áhugamál hennar og strax og hún kom til Reykjavíkur fór hún að syngja í Kór Kópavogskirkju þar sem Rannveig systir hennar var kórfélagi, hún söng með Gerðubergskórnum og hún söng hér í Kór Hjallakirkju og það eru kórfélagar hennar sem syngja hér við útför hennar í dag.

Kirkjukórasambandið naut félagsmálaáhuga hennar og var hún formaður þess í allmörg ár.

Guðrún naut þess að ferðast bæði innanlands og utan. Fór margar ferðir með Rannveigu systur sinni og börnum sínum að ógleymdum öllum kórferðalögunum.

Guðrún átti fallegt heimili í Dalseli 36 og bjó þar eins lengi og heilsan leyfði en dvaldist á Hrafnistu síðustu árin, farin að líkamskröftum en andlegum kröftum hélt hún til hins síðasta.

Kann fjölskylda Guðrúnar starfsfólki og sambýlisfólki bestu þakkir fyrir þessi síðustu ár.

Á Hrafnistu var hún svo heppin að hafa útsýni til Esjunnar og út á sundin og gat fylgst með skipakomum. Hún hafði td hjá sér lista yfir þau skemmtiferðaskip sem komu til hafnar í Reykjavík á sumrin og hafði gaman af því að fylgjast með þeim allt fram á þetta haust.

 

Páll postuli segir í Filippíbréfinu:

Verið ávallt glöð í Drottni – allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. - Alla þessa eiginleika hafði Guðrún Sigurðardóttir til að bera. Hún bar með sér birtu og léttleika og var sanngjörn og réttsýn og gerði aðra glaða í kringum sig með fallegu brosi í öllu andlitinu og glitrandi í augunum, með léttum hlátri og fínu skopskyni.

Í Davíðssálminum sem ég vitnaði í sem yfirskrift um hana biður sálmaskáldið til Guðs og við skulum öll að hugsa um Guðrúnu meðan ég les þá bæn hér:

 

Drottinn, send ljós þitt og trúfesti þína

þau skulu leiða mig

þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga,

til bústaðar þíns

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs,

til Guðs minnar fagnandi gleði

og lofa þig undir hörpuslætti,

ó, Guð, þú Guð minn.

 

Og ég vil leyfa mér að hugsa um þau nú samfagnandi þau góðu hjón Guðrúnu Sigurðardóttur og Stefán Eggertsson sem helguðu kirkju Krists lífsstarf sitt.

 

Við megum í trausti til miskunnar Guð fela Guðrúnu Nönnu Sigurðardóttur góðum Guð á vald um leið og við þökkum honum fyrir hana og alla blessun sem hann gaf okkur með henni.

Guð blessi allar minningarnar sem þessi stund er helguð og huggi þá sem hryggðin slær.

Guð sé styrkur okkar og athvarf allar stundir.

Í Jesú nafni. Amen.


Séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir



 

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30