A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
24.01.2010 - 22:55 | Hallgrímur Sveinsson

Lok lok og læs og allt í stáli

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Það er almennt viðurkennt að Vegagerðin okkar er merkilegt fyrirtæki sem hefur unnið margt stórvirkið í tímans rás í okkar strjálbýla og fjöllótta landi. Margir frábærir vegagerðamenn hafa komið þar við sögu, ekki síst hér fyrir vestan og enn eru þar að störfum menn sem skilja að Vegagerðin er þjónustufyrtæki almennings. Hinn sami almenningur á samt oft bágt með að skilja að það eru fjárveitingar löggjafarvaldsins sem setja mönnum stólinn fyrir dyrnar á þeim bæ sem annarsstaðar. En það er ekki alltaf svo að fjárveitingar segi stopp. Stundum er nefnilega staðið þannig að málum að almenn skynsemi virðist út í hafsauga og skal nú nefnt einfalt dæmi um það.
Þann 2. janúar síðastliðinn fór moksturstæki á vegum Vegagerðarinnar upp á Hrafnseyrarheiði til að liðka til fyrir snjóbíl Ísafjarðarbæjar, svo hann gæti ekið eftir veginum ef á þyrfti að halda, en snjór hefur verið svo lítill hér í vetur að snjóbíll hefur ekki getað athafnað sig. Ótrúlegt en satt!
Í ljós kom að snjór var sáralítill á veginum og kom almenningi ekki á óvart. En það skipti ekki máli. Ekki mátti moka nema tannarbreidd, rétt fyrir snjóbílinn, því vegurinn á að vera lokaður samkvæmt almanakinu. Með því að skilja eftir snjó á helmingi vegarins, uppi í vatnsrásinni, hefur klaki sem var á honum ekki bráðnað þrátt fyrir eindæma tíð. Klukkutíma vinna í viðbót hefði gert það að verkum að vegurinn væri nú marauður öllum til ánægju nema Vegagerðinni, sem segir að menn aki á eigin ábyrgð á vegum sem eigi að vera lokaðir!
En menn hafa svo sem verið að fara þetta þrátt fyrir að Vegagerðin hafi auglýst veginn ýmist lokaðan eða flughálan. En það má ekki með nokkru móti láta laga svona smá agnúa vegna þess að almanakið blívur.
Vikum, jafnvel mánuðum saman, með örfáum undantekningum, hefur staðið loft og sjór hér fyrir vestan eins og sagt er. Vegagerðin okkar lætur samt nokkra smá snjóskafla fara í taugarnar á sér eins og fyrri daginn. Lok lok og læs og allt í stáli sagði Ómar forðum. Og Ragnar í Gámaþjónustunni á Ísafirði má bíta í það súra epli, svo dæmi sé nefnt, að láta bíla sína aka norður á Strandir, fleiri hundruð kílómetra extra, til að sækja sorpið á suðurhluta Vestfjarða, í stað þess að renna stystu leið. Bara hjá því eina fyrirtæki er aukinn kostnaður að óþörfu upp á hundruð þúsunda því reglur eru reglur sem okkar ágæta Vegagerð hefur bitið í sig. Hér er enginn að heimta að moka snjó uppi á fjöllum þegar allt er á kafi. En þjóðhagsleg hagkvæmni er látin lönd og leið og heimskulegar snjómokstursreglur látnar ráða, hvernig sem viðrar. Hér virðist vanta svolítinn sveigjanleika að dómi vegfarandans. Svo einfalt er nú það.
Spurningin er hvort hér sé ekki verið að vinna gegn náttúrulögmálunum og ekkert hugsað um mannlega þáttinn. Má ekki blessað fólkið njóta þess þegar vel viðrar? Er þetta hægt, Matthías?
Þess skal getið, að Dynjandisheiðin er búin að vera fær vikum saman í blíðunni.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31