A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
09.11.2011 - 00:12 | Hallgrímur Sveinsson

Lagði svo á Álftamýrarheiði með brennivínstunnuna á bakinu

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Til skamms tíma deildu menn hart hér vestra um hvort perla Vestfjarða héti Dynjandi eða Fjallfoss. Skiptust menn í flokka og héldu margir fast með sínu nafni, þó ekki hafi hlotist af meiðingar eða mannvíg líkt og trúlega hefði gerst á Sturlungaöld. Þó enn eimi eftir af því deilumáli, má segja að tíminn hafi skorið úr um þessar nafngiftir. Einnig rannsakaði Kjartan Ólafsson, Nestor vestfirskra fræðimanna, það mál ofan í kjölinn og varð hans áliti ekki áfrýjað. En nú er komið upp annað deilumál af svipuðum toga. Í Morgunklúbbnum í sundlauginni á Þingeyri, þar sem mál eru krufin til mergjar af mikilli speki, deila menn nú hart um hvort heiðin eða skarðið milli Fossdals í Arnarfirði og Kirkjubólsdals í Dýrafirði heiti Álftamýrarheiði eða Fossdalsheiði og við sjálft liggur að þingheimur berjist, en sumir eru að vísu hlutlausir í málinu.

Skal nú kalla til nokkra dómbæra menn í þessu álitamáli og fyrstan telja þjóðfræðamanninn Kjartan Ólafsson áðurnefndan. Í Kjartansbók segir svo: "Leið okkar liggur nú frá Álftamýri út með ströndinni. Spölurinn frá túnfætinum út að Fossá, sem einnig er nefnd Fossdalsá, mun aðeins vera tveir kílómetrar. Dalurinn sem áin fellur um heitir Fossdalur og er liðlega fjórir kílómetrar á lengd. Um hann liggur leiðin á Álftamýrarheiði sem á fyrri tíð var alfaravegur yfir í Kirkjubólsdal í Dýrafirði. Sjálf heiðin er aðeins mjór hryggur í 544 metra hæð og upp á hana er farið úr innanverðum dalbotninum. Vetrarleið úr botni Fossdals yfir í Kirkjubólsdal lá aðeins utar og var þá farið yfir Kvennaskarð."(Firðir og fólk 900-1900, Vestur Ísafjarðarsýsla, útg. Útgáfufélag Búnaðarsambands Vestfjarða 1999, bls. 64)


Og nú yfir á 19. öldina. Séra Jón Ásgeirsson (1804-1886) var prestur á Álftamýri lengi og reyndar einnig á Hrafnseyri og eru af honum margar sagnir. Þeir voru systkinasynir Jón Sigurðsson og séra Jón og brölluðu margt saman á yngri árum. Séra Jón var hraustmenni svo af bar, fimur og harðfengur við störf. Svo var hann yfirlætislaus við alla og ljúfur, að slíks eru nálega engin dæmi um mann í hans stöðu. Hann var orðlagður kennimaður og andríkur með afbrigðum, en drykkjugjarn um of. Svo segir Sighvatur Borgfirðingur.

 

Eitt sinn á fyrstu prestskaparárum sínum á Álftamýri datt séra Jón í það á Þingeyri, eins og við mundum orða það í dag, en Sighvatur segir að hann hafi verið við vín. Þá var staddur þar fyrir utan verslunina fjöldi franskra duggusjómanna í sömu erindum og prestur, satt að segja bara blindfullir. Jæja, kemur nú ekki Álftamýrarklerkur út úr verslunarbúðinni með brennivínstunnu í fanginu og vildu franskir gera tunnuna upptæka af klerki með það sama, sem ekki lét lausa tunnu sína og hófust nú slagsmál og er með ólíkindum að lesa hvernig séra Jón handlék þá Fransmenn. Lauk þeim viðskiptum svo að flótti brast í lið þeirra frakknesku og réru ákaft út í duggur sínar og sumir sárir. Ekki er þess getið að séra Jón hafi særst í bardaganum og ekki var hann þreyttur til muna, því sama dag lagði hann á Álftamýrarheiði með brennivínstunnuna á bakinu og kom með hana heim til sín um kvöldið. (Sjá Helgi Guðmundsson, Vestfirskar sagnir, 3. hefti, Bókav. Guðm. Gamalíelssonar 1934, endurútg. Vestfirska forlagið 2011, bls.272)


Á herforingjaráðskortinu frá 1913 tala þeir dönsku um Álftamýrarheiði. Þórður Njálsson, hreppstjóri Auðkúluhrepps, heldur sig við einnig við Álftamýrarheiði í þætti sínum um hreppinn í Árbók F. Í. 1951. Sama er að segja um örnefnaskrá Álftamýrar í skrám Örnefnastofnunar. Þá segir Knútur Bjarnason, bóndi á Kirkjubóli í Dýrafirði, sem nú er á fimmta ári hins tíunda tugar, að alltaf hafi verið talað um Álftamýrarheiði á sínum bæ. Ól. V. Þórðarson, sem alinn er upp í Stapadal á norðurströnd Arnarfjarðar, segir aftur á móti að í sínu ungdæmi hafi alltaf verið talað um Fossdalsheiði. Fé var rekið yfir Fossdalsheiði og menn fóru í kaupstað til Þingeyrar yfir þá heiði en ekki Álftamýrarheiði. Andrés G. Jónasson, sem alinn er upp í Lokinhömrum, segir að engum hafi dottið í hug að tala um Álftamýrarheiði á þeim bæ. Afi hans, Sigurður Guðmundson talaði alltaf um Fossdalsheiði og sama segir hann að alþýðuskáld Auðkúluhrepps, Njáll Sighvatsson, hafi gert.
Kristján Ottósson, sem alinn er upp í Svalvogum, segir að hann hafi alltaf vanist því í æsku þar á útnesjunum að talað væri um Fossdalsheiði.

 

Hvað segja menn um þetta: Hrafnseyrardalur = Hrafnseyrarheiði, Lokinhamradalur = Lokinhamraheiði, Gemlufallsdalur = Gemlufallsheiði, Breiðadalur = Breiðadalsheiði, Botnsdalur = Botnsheiði? Og hvers vegna ætli Vestfirðingar hyllist til að hafa tvö nöfn á sumum örnefnum sínum? Það er skemmtilegt rannsóknarefni fyrir nútíma fræðimenn.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31