A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
19.04.2011 - 00:28 | Bjarni Guðmundsson

Kirkjan á Þingeyri – aldarstaður gleði og sorga

Bjarni Guðmundsson
Bjarni Guðmundsson
Þingeyrarkirkja er orðin hundrað ára. Mér kemur hún oft í hug, ekki síst þar sem ég geri nokkuð af því að leiða gesti í Hvanneyrarkirkju í Borgarfirði og segja þeim sögu skólastaðarins þar. Kirkjurnar tvær eiga sama húsameistarann: Dýrfirðinginn Rögnvald Ólafsson. Kirkjurnar eru byggðar á svipuðum tíma; Hvanneyrarkirkja þó vígð rúmum fimm árum fyrr. Munurinn er annars sá að Hvanneyrarkirkja var í sparnaðarskyni minnkuð töluvert frá teikningu Rögnvaldar, og höfð einfaldari að innri gerð. Meginform kirknanna tveggja hugsaði Rögnvaldur þó sýnilega hið sama.

Ég hef alltaf dáðst að því hve myndarlega var að gerð og byggingu Þingeyrarkirkju staðið. Metnaður, dugnaður og framsýni einkenndi öll störf þeirra er að verkinu stóðu, svo sem rakið hefur verið af kunnugum við þessi tímamót.

Þingeyrarkirkja er með allra fallegustu guðshúsum á landinu. Nýjasta staðfesting þess er myndkaflinn ágæti sem hefur tilvísunina http://www.youtube.com/watch?v=YyvaR1TDAyo Má þar sjá bæði hið ytra og innra hve einstakt listaverk þetta guðshús er sem vörður fjarðarins á fagurlega miðlægum stað.

Þingeyrarkirkja geymir mikla sögu. Mest af henni er greypt í huga þeirra mörgu sem kirkjuna hafa sótt á hundrað ára skeiði - bæði á stundum sorgar og gleði. Fæst af henni hefur farið með hrópum og köllum. Þótt kirkjan virðist mörgum úrleiðis þar sem hún stendur þarna úti á Oddanum á hún þó hljóðan stað í hugum fjölmargra nær og fjær. Það varðar mestu.
Ég man mig fyrst í Þingeyrarkirkju með föður mínum á sólríkum degi sumarið 1950 er prófasturinn í Holti setti sr. Stefán Eggertsson inn í embætti sóknarprests. Fáeinum mánuðum seinna kvöddum við afa minn og nafna í Þingeyrarkirkju. Snjómuggan á kirkjugluggunum mildaði ekki söknuð lítils drengs og alvarleiki stundarinnar fór ekki fram hjá honum þar sem hann mældi út hinar háu súlur og hringform loftskreytingarinnar.

Ég hef líka lesið frásögn móðursystur minnar af ógleymanlegri jólamessu í Þingeyrarkirkju, líklega laust eftir 1920, er hún heyrði hátíðarsöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar fyrst sungna þar: „Henni þótti stórkostlegt að heyra svo fagran, margraddaðan söng, sjá allt fólkið og öll ljósin í kirkjunni ... Eftir messuna gengu þau heim, um klukkustundar gang, og alla leiðina gekk hún líkt og í leiðslu og allan tíman hljómaði þessi yndislegi söngur í eyrum."

Ég man líka sólbjartan fermingardag okkar Kitta á Hofi þar sem við gengum fyrir gafl þéttsetinnar Þingeyrarkirkju í óbærilegum hita á Hvítasunnu 1957. Sr. Stefán hafði auk hins andlega séð okkur fyrir öllum praktískum hlutum, m.a. ráðið okkur frá því að nota mikið af brilljantíni og sagt okkur hvar geyma skyldum vasaklútana til þess að strjúka af okkur svitann, en það er önnur saga...

Þungar stundir geymir Þingeyrarkirkja einnig svo sem þegar kvatt var fólk er hrifið hafði verið úr blóma lífsins vegna sjúkdóma, slysa eða átaka mannlegrar grimmdar, sem fjörðurinn fór ekki varhluta af. Hugur einn það veit og þótt fátt segi jafnan af einum hafa það oftar en ekki verið stundir, er snertu byggðina alla. Þá varð Þingeyrarkirkja til þess að efla fólki samlíðun og veita þeim styrk er mest þuftu með.

Þessar línur eru aðeins til þess að þakka Þingeyrarkirkju árin mörgu. Líka til þess að óska henni bjartrar framtíðar og láta í ljósi von um að enn megi hún vaka með byggðinni: Að hún megi áfram verða hverjum er kýs staður til þess að rækta gleði og til þess að sækja huggun í anda þess boðskapar sem er grundvöllur guðhússins, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Næst þegar ég geng í Hvanneyrarkirkju mun ég líka minnast og hugsa hlýtt til kirkjunnar minnar á Þingeyri og meistara þeirra beggja, Rögnvaldar Ólafssonar. Sem einn af höfuðsmiðum guðshúsanna tveggja erfiðaði hann ekki til ónýtis ...

Bjarni Guðmundsson
17.4.2011
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31