Jólatré
Ég verð samt að velta því fyrir mér hvort að jólin séu eitthvað styttri á Ísafirði, eða hvort þar sé eitthvað annað tímatal í gangi? Það er ekki nema von að þið undrist þessar vangaveltur, a.m.k þeir sem leggja ekki leið sína reglulega hingað yfir. Ef þið hinsvegar ættuð leið um bæinn, eða gefið ykkur örfáar sekúndur til að skoða meðfylgjandi ljósmynd, þá mynduð þið fljótt átta ykkur hversvegna mér er spurn.
Þetta er jólatré Ísafjarðarbæjar, staðsett á Þingeyri. Tignarlegt ekki satt? Svona hefur það verið í u.þ.b. viku eða svo. Svona til að fyrirbyggja allan misskilning, þá logar aðeins ein pera á því. Öll önnur ljós á myndinni eru ljósastaurar í nágreninu. Ég leyfi mér að efast um að jólatréð á Silfurtorgi fengi að vera svona í svo mikið sem einn dag.
Það er spurning hvort að við förum ekki bara fram á að á næsta ári verði tréð skreytt með speglaflísum, við gætum þá fengið að njóta endurvarpsins frá ljósastaurunum.