A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
04.11.2012 - 20:35 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Hverjum var verið að borga, hve mikið og fyrir hvað?

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.
« 1 af 2 »

    Eitt það erfiðasta sem þessi litla þjóð glímir við er leyndarhyggjan í sambandi við peninga. Það má til dæmis ekki með nokkru móti segja frá því á eðlilegan hátt hverjum er verið að borga úr ríkiskassanum okkar, hve mikið og fyrir hvað. Um þetta eru að vísu gerðar opinberar áætlanir, fjárlög og hvað það nú heitir allt. En að farið sé eftir þeim er af og frá. En það má bara ekki fréttast fyrr en seinna. Slík hernaðarleyndarmál, top secret, liggja ekki á glámbekk. Það verður að draga þau út með glóandi töngum og dugar samt ekki alltaf.
 
Varðhundar kassans gera allt sem hægt er til að varna því að almenningur komist að því hvað þeir eru að aðhafast. Eitt aðal djobb alþingismanna okkar er að spyrja ráðherra hverjum var verið að borga, hve mikið og fyrir hvað. Þessi dæla gengur dag út og dag inn á alþingi. Og ráðherrarnir fara undan í flæmingi. Það má alls ekki segja frá hvernig er verið að ráðstafa skattpeningum almennings á hverjum tíma. Það á bara að segja frá því síðar meir. Það er miklu betra. Svo eru settar á stofn rannsóknarnefndir sem kosta hundruð milljóna til að toga þetta út og tekur oft mörg ár. Þá eru gefnar út skýrslur sem enginn maður les, en fara beint ofan í skúffur. Slíkar kúnstir virka oft á venjulegt fólk eins og sárgrætilegur brandari.

   Engum manni dettur í hug einfaldasta lausnin á málinu, sem er auðvitað sú að setja það klárt og kvitt í stjórnarskrá að allar fjárhagslegar skuldbindingar og greiðslur sem við koma ríkissjóði, hverju nafni sem nefnast, séu birtar jafnóðum og þær eiga sér stað. Hér mætti kannski hugsanlega undanskilja einhverja gerninga sem vörðuðu við þjóðaröryggi, ef þeir eru þá til á annað borð. Það mundi kannski friða einhverja sérfræðinga sem ekki geta hugsað sér að einfalda hlutina og hafa allt upp á borðum eins og stjórnmálamenn okkar eru svo hrifnir af eða hitt þó heldur.

   Nei. Leyndarhyggjan er það sem gildir þangað til mörgum árum eftir að hlutirnir eiga sér stað. Menn virðast bara hafa frjálsar hendur og búið á punktum. Síst af öllu má upplýsa hvað sérfræðingarnir eru að fá greitt í verktakalaun og alls konar tilbúna hluti úr ríkissjóði. Þetta eru heilagar kýr. Launungin, sem er eitt alvarlegsta vandamál sem okkar litla og sundurþykka þjóð glímir við, skal áfram vera eitt aðal stjórntækið eins og verið hefur.

   Í fyrra leyfðum við undirritaðir okkur að leggja fram eftirfarandi tillögu til umhugsunar fyrir ráðamenn þjóðarinnar og enn skal vegið í þann sama knérunn því dropinn holar steininn:

   Forstöðumönnum allra opinberra stofnana verði fyrirskipað að birta á vefsíðum sínum einu sinni í mánuði alla kostnaðarreikninga sem stofnað hefur verið til mánuðinn á undan. Og hverjir það eru sem fá þær greiðslur. Þetta á að sjálfsögðu einnig við öll laun og sporslur sem verið er að greiða hinum og þessum. Nefna má greiðslur til ríkisstarfsmanna fyrir að starfa í nefndum í vinnutíma sínum, dagpeninga, ferðakostnað, þar með taldar utanlandsferðir, kostnað við sendiráð, símakostnað, verktakagreiðslur hverju nafni sem nefnast og svo framvegis. Hér er auðvitað einnig átt við ráðuneytin sjálf og þá sem þeim stjórna. Þetta er svo einfalt að sendisveinarnir gætu alveg séð um að setja þetta inn á Vefinn. Birta allt jafnóðum og það gerist. Með því móti mundu sparast milljarðar króna í ríkisrekstrinum að okkar mati með einföldum hætti og þjóðfélagið ganga í endurnýjun lífdaganna.

   Þegar ríkissjóður hefur varðað þessa leið munu sveitarfélög koma á eftir og svo almenningshlutafélögin. Þau munu gera eigendum sínum, hluthöfunum,  grein fyrir öllum greiðslum úr sjóðum sínum mánaðarlega. Það þýðir einfaldlega að menn munu veigra sér við að stela öllu steini léttara eins og tíðkast hefur hjá sumum félögum. Og aðrar þjóðir munu taka eftir þessu hjá okkur og íslenska þjóðin endurheimta eitthvað af því trausti sem fór fyrir lítið. Þá verður farið að taka svolítið mark aftur á okkar litlu þjóð.  

    Með þeirri aðferð sem hér er nefnd, sem mætti kalla sjálfbæra endurskoðun, getur alþýða manna og alþingismenn fylgst með jafnóðum og hlutirnir gerast. Einfaldlega að opna tölvuna og þeir sem til þekkja og áhuga hafa geta lagt fram fyrirspurnir og athugasemdir ef þurfa þykir. Ríkisendurskoðun vinnur svo sitt verk og allt verður miklu léttara í vöfum fyrir hana með almenning sér við hlið. Ekkert röfl eða vesen á Alþingi eða eltingarleikur við ráðherra og sjálftaka mundi líklega minnka eða jafnvel hverfa alveg. Það er nefnilega ekkert eftirlit eins gott og þegar almenningur lætur sig málin varða. En til þess þarf aðgang að upplýsingum.  

   Hverjum var verið að borga, hve mikið og fyrir hvað? Þetta er grundvallarspurning og svarið ætti að vera aðgengilegt hverjum sem hafa vill á þeim tíma sem greiðslur eiga sér stað úr okkar sameiginlega kassa. Vilji er allt sem þarf, sagði Einar Benediktsson. Punktur og basta. 

 
Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31