A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
11.09.2012 - 06:32 | Hallgrímur Sveinsson

Hver síða 50 þúsund krónur, takk

Hallgrímur Sveinsson flytur ávarp á bókakynningu á Selfossi.
Hallgrímur Sveinsson flytur ávarp á bókakynningu á Selfossi.
« 1 af 3 »

Sú frétt birtist í fjölmiðlum í vikunni sem leið, að verið væri að skrifa sögu Hellu í Rangárþingi ytra, sem var eins og kunnugt er lítið sveitaþorp á Suðurlandi, nú stórt og myndarlegt kauptún. Hefur þessi söguritun staðið frá 20. maí 2008. Í Dagskránni, Fréttablaði Suðurlands, segir svo í niðurlagi fréttar um málið:

„Lagt var af stað með 300 bls. rit í einu bindi en nú hefur ritstjóri lagt til að ritið verði um 600 síður í tveimur bindum. Kostnaður vegna byggðasögu Hellu nemur nú um 23 milljónum króna en ritstjóri mun að sögn kappkosta að klára verkið á miðju næsta ári." Tilvitnun lýkur.


Nú er það að sjálfsögðu fagnaðarefni að sveitarfélag skuli gangast fyrir því að láta skrifa sögu sína. En spyrja verður: Hafa Rangvellingar virkilega efni á þessum ósköpum? Við hérna fyrir vestan erum bara orðlaus í einu orði sagt og þarf stundum býsna mikið til.


Ekki verður hér dæmt um þetta söguritunarmál í Rangárþingi. En óhætt ætti að vera fyrir þá sem eru að vinna að svipuðum bókmenntum annars staðar á landinu og aðra sem áhuga hafa á slíku, að íhuga kostnaðinn aðeins. Miðað við framkomnar upplýsingar, að uppundir ársvinna sé ennþá eftir við söguritunina, er ekki ofílagt að þessi 600 síðna ritgerð muni kosta um 30 milljónir króna þegar upp verður staðið, eða 50.000,- kr. á hverja síðu! Er þá trúlega ekki reiknað með prent- og útgáfukostnaði og gerir það málið ennþá undarlegra, því sá kostnaður reynist mörgum oft mjög erfiður og sala stundum ótrygg og getur tekið mörg ár að selja viðkomandi verk og hrekkur stundum rétt fyrir prentkostnaði.

Þetta Helludæmi er mikið umhugsunarefni og eiginlega óskiljanlegt venjulegu fólki. Hvað skyldu skúringakonur og annað verkafólk til dæmis segja um það að ritlaun fyrir 3-5 síður í sögu Hellu á Rangárvöllum séu jafnhá og venjuleg mánaðarlaun hjá þeim?


Hér má vel segja frá því, fyrir þá sem ekki þekkja til, að lítið bókaforlag hér fyrir vestan hefur á tiltölulega skömmum tíma gefið út á þriðja hundrað bækur um Vestfirði og Vestfirðinga án þess að nokkur maður hafi tekið eftir, eins og klerkurinn í Vatnsfirði orðaði það svo skemmtilega. Þar hafa margir lagt hönd á plóg, allt frá óskólagengnum múgamönnum upp í hálærða prófessora. Þar kennir auðvitað ýmissa grasa, en þegar á heildina er litið má segja að þetta sé sama tóbakið og í væntanlegri Hellusögu. Sá er bara munurinn að hér fyrir vestan fá menn yfirleitt lítið fyrir sinn snúð. Oftast bara ánægjuna og eru það að vísu býsna góð ritlaun þegar upp er staðið.


Hallgrímur Sveinsson 


Höfundur er bókaútgefandi og léttadrengur á Brekku í Dýrafirði.

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31