Hvenær gekk veiðirétturinn þjóðinni úr greipum?
Annað sem fjármálaráðherra og stjórnarflokkarnir vísa gjarnan til í þessari umræðu er svokölluð sáttaleið. Sú leið er afsprengi síðustu ríkisstjórnar sem tók kúvendingu á miðju kjörtímabili og rauf sátt sína við þjóðina til þess að gera nýja sátt við hagsmunaaðila. Sú svikasátt hlaut þetta nafn: Sáttaleiðin. Þessi sátt er afbökun á vilja þjóðarinnar sem liggur fyrir og kom m.a. fram í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012.
Nauðsynlegt er að fólk átti sig á því að eignarhald þjóðarinnar á sjávarauðlindinni er einskis vert fylgi nýtingarrétturinn ekki með. Þess vegna er fyrsta grein fiskveiðistjórnunarlaga eins og hún er:
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
Veiðirétturinn hefur aldrei gengið þjóðinni úr greipum, ekkert söluferli hefur farið fram og engin afsöl staðfesta sölu ríkisins á veiðiheimildum. Kvótabraskið er þannig ekkert annað en hugarfóstur banka og hagsmunaaðila sem sitja á fiskimiðunum eins og hústökufólk. Þeir hafa komið sér kirfilega fyrir og áframleigja veiðiréttinn, veðsetja hann og selja eins og sína ævarandi eign þó lög kveði skýrt á um annað. Afleiðingin er sú að auðlindaarðurinn rennur að langstærstum hluta til útgerða og banka en ekki til lögmæts eiganda, þ.e. þjóðarinnar. Um upprætingu þessa ætti nýtt sjávarútvegsfrumvarp að snúast en ekki að gera ríkið skaðabótaskylt gagnvart hagsmunaaðilum.
Auðvitað geta stjórnmálamenn haft þá skoðun að veiðiréttinum sé betur fyrir komið hjá einkaaðilum en þjóðinni. En vonandi verður það þó aldrei lögfest nema með skýru samþykki eigandans í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Lýður Árnason
Höfundur er læknir og vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar.