Hvað sagði Steingrímur Hermannsson?
„Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri landssambands íslenskra útvegsmanna, var eitt sinn að því spurður hvers vegna útgerðarmenn sæktu svo stíft eftir heimildum til að kaupa nýrri og stærri togara fyrst þeir væru reknir með bullandi tapi. Kristján svaraði, og eflaust af hreinskilni, að það gerðu þeir vegna þess að þeir þyrftu ekki að hætta sínu eigin fé við fjárfestingarnar. Þeir fengju lánað nær til fulls fyrir kaupunum úr opinberum sjóðum og veðin væru aðeins í skipunum sjálfum. Útgerðarmenn hefðu því engu að tapa. Mér þótti þetta heldur vafasamt siðferði þótt skýringin ætti eflaust við rök að styðjast.
Það er umhugsunarefni að fáum árum síðar voru þessir sömu menn, sem ekki hættu eigin fjármagni nema að litlu leyti til kaupa á skipum, eftir því sem Kristján Ragnarsson sagði, taldir sjálfsagðir handhafar, ef ekki eigendur kvótans þegar hann kom til sögunnar. Þá voru rökin þau að þeir hefðu með eigin dugnaði, fjármagni og fórnarlund dregið fiskinn úr sjó og fært hann á land áratugum saman.“ (Steingrímur Hermannsson, eftir Dag B. Eggertsson, 2. bindi bls. 283 Vaka Helgafell Rvk. 1999)
Steingrímur var sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Hann fékk Vestfirðinginn og reynsluboltann Baldur Jónsson frá Aðalvík sér til aðstoðar. Þeir settu saman tillögur um nýtt kerfi í fiskveiðistjórnun. Grundvöllur þess var að það leiddi ekki til byggðaröskunar. Kvótanum átti að deila á milli fiskvinnsluhúsa, skipa og báta á hverju tilgreindu svæði. Sem sagt beint til fólksins á viðkomandi stað. Fólksins sem hafði lifað á fiski frá upphafi byggðar í landinu. Ekki skipti máli hvar fiskinum yrði landað innan hvers löndunarsvæðis. Innan þess mátti jafnframt framselja hann milli fiskverkenda og báta.
Nú er þjóðarnauðsyn að rifja upp þessar tillögur þeirra félaga. Þær voru því miður jarðaðar og tröllum gefnar á sínum tíma. Útgerðarmenn í LÍÚ gerðu tillögur um kvóta á skip með stuðningi sjávarútvegsráherrans sem tók við af Steingrími. Þeir fengu að ráða ferðinni. Þetta var upphafið að þeirri feigðarför fyrir hinar dreifðu byggðir sem Íslendingar hafa síðan gengið.
Íslenskir útgerðarmenn eru alls góðs maklegir. Og það er auðskilið að þeir hagi seglum sínum eftir vindi. En að þeim skyldi afhentur á silfurfati frumburðarréttur þjóðarinnar er algjörlega með ólíkindum. Þeir hafa raunverulega ráðið því hvar byggð skyldi vera í landinu. Óskiljanlegt venjulegu fólki, einkum þeim sem hafa unnið við fisk alla sína hunds-og kattartíð. Fréttir dagsins staðfesta þau geigvænlegu mistök. Spurningin er aðeins þessi: Er orðið of seint að snúa við á feigðargöngunni?
Hallgrímur Sveinsson
Bjarni G. Einarsson