A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
03.07.2016 - 22:08 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Hvað sagði Ásgeir Ásgeirsson um forsetaembættið?

Ásgeir Ásgeirsson.
Ásgeir Ásgeirsson.

Í einni af sínum stórkostlegu samtalsbókum átti Matthías Johannessen tal við Ásgeir Ásgeirsson, sem þá hafði nýlega látið af forsetaembætti.

Matthías skrifar svo:

„Stundum heyrast raddir um að það ætti að spara forsetaembættið og fela t. d. forsætisráðherra störf hans. Hvað segir þú um þá tillögu?“

   „Ég á erfitt með að skilja, hvernig fráfarandi forsætisráðherra getur staðið fyrir og borið ábyrgð á myndun nýrrar stjórnar. En stjórnarmyndanir hafa oft reynzt erfiðar hér á landi og dregizt á langinn þó að ég hafi sloppið vel í því efni og ekki þurft nema einu sinni að mynda stjórn án stuðnings meirihluta Alþingis – og þó með nægu hlutleysi.

   Forseti hefur og ýmsum skyldum að gegna, sem erfitt mundi að koma fyrir öðruvísi. Það er t. d. venja að þjóðhöfðingjar vina-og nágrannaþjóða heimsæki hver annan, og við höfum stjórnmálasamband við a. m. k. 35 þjóðir. Og þó að einungis 8 þeirra hafi búsetta fulltrúa hér á landi, er nú orðið mikill straumur sendiherra til okkar lands enda virðast margir fúsir að koma hingað árlega ef þeir eiga þess kost.

   Þá er ekki heldur þýðingarlaust að tekið sé á móti innlendum mönnum og félagasamtökum á höfuðbóli þjóðarinnar, enda gerðum við okkar til að fullnægja þeirri þörf.

   Forseti þarf og að fylgjast nákvæmlega með stjórnmálaástandi á hverjum tíma og mynda sér skoðanir um menn og málefni, þó að hann hafi ekki hátt um þær, auk þess sem hann þarf að bera gott skyn á alþjóðamál og menningu og hagi þeirra þjóða, sem við kunnum að eiga nokkuð undir.  Það er mín reynsla, að þetta og ýmislegt fleira taki nokkurn tíma og sé ekki bætandi ofan á nokkuð annað embætti sem fyrir er.

   Mín trú er sú, að embætti forseta íslands verði ekki afnumið, meðan vér erum sjálfstæð þjóð,“ sagði Ásgeir Ásgeirsson að lokum – og lét fylgja dálitla áminningu til mín eins og rúsínu í pylsuendanum.

   „Þú sagðir af hógværð þinni að þú þyrftir aðeins að tala við mig í eina klukkustund eða svo. Ég get ekki varizt því, að þessi orð þín minna mig á, að einhverju sinni kom til mín í stjórnarráðið karl austan úr sýslum og sagði: „Ekki væntir mig að ég megi tala við ráðherrann í svo sem þrjár klukkustundir.“

                                   (M Samtöl 2 Almenna Bókafélagið 1969)

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31