A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
03.12.2011 - 11:10 | Sigurður Pétursson

Hugvekja á aðventu

Sigurður Pétursson
Sigurður Pétursson
Góðir Dýrfirðingar, nú skartar vetrarríkið sínu fegursta hér í firðinum, þegar mjúk snjóhulan þekur hálsa og hæðir og fjöllin sem umkringja fjörðinn. Dularfull birtan í ljósaskiptunum er engu lík hér hjá okkur fyrir vestan og minna á dulúð þessa árstíma, sem ætíð hefur haft mikil áhrif á líf okkar hér við ysta haf.

Nú nálgast sá dagur þegar sólin er lægst á lofti. Frá alda öðli hafa menn haldið hátíð á þeim tímamótum, þegar daginn fer aftur að lengja og sólin tekur að hækka á ný. Þráin eftir birtunni er sameiginleg öllum þjóðfélögum á norðurhveli. Heiðnir forfeður okkar héldu jólahátíð í lok desember og kristnir menn halda upp á fæðingu frelsarans á sama tíma. Jólahátíðin í mesta skammdeginu, er jafnframt hátíð ljóssins. Andstæðurnar í náttúrunni kalla fram vonir um betri og bjartari tíð.

Jólin eru líka sá árstími sem við óskum helst að vera með okkar nánustu. Fjölskyldur safnast saman og margir leggja á sig ferðalög og erfiði til að sameinast ættingjum og vinum yfir jólahátíðina. En við vitum líka að það eru ekki allir jafn lánsamir í okkar samfélagi. Það eru ekki allir sem eiga stóra fjölskyldu eða vinahóp. Margir eru einmana á þessum árstíma og eiga erfitt. Við skulum hugsa til þess, um leið og við tökum á móti aðventunni, að það eru margir í okkar samfélagi sem þurfa á hjálp að halda af ýmsum orsökum. Lítið viðvik, umhyggja eða fallegt bros, getur breytt miklu. Það þarf ekki að kosta mikið.

Munum að gleðin fellst ekki í stærri og dýrari gjöfum ár frá ári. Við ættum að minnast þess Íslendingar, að dansinn í kringum gullkálfinn getur verið dýkeyptur bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélög. Það ætti ekki að þurfa að minna okkur á það eftir dýfur síðustu ára.

Dýrfirðingar hafa gegnum aldirnar ræktað landið og sótt á sjóinn. Það hefur verið undirstaða mannlífs hér á þessum slóðum, eins og á öllum Vestfjörðum. Á síðustu árum hafa þessar undirstöður okkar samfélags verið veiktar og jafnvel brotnar. Landbúnaður á undir högg að sækja hér á Vestfjörðum og kvótakerfi í sjávarútvegi hefur komið hart niður á mörgum byggðarlögum. Hér þarf að taka til hendi, koma á breytingum og byggja upp á nýtt. Við vitum að hörð átök hafa staðið um gullið í hafinu, en við getum ekki samþykkt að réttur okkar Vestfirðinga til að nýta okkar helstu auðlind sé tekinn frá okkur af misvitrum stjórnvöldum eða gráðugum peningaöflum. Við sættum okkur aldrei við það. Það er tími til kominn að Vestfirðingar sameinist um þá kröfu að grunnmiðin hér í kring tilheyri byggðunum okkar.

Þingeyri og Dýrafjörður á sér merka fortíð. Þar hafa fyrst og fremst komið við sögu harðsæknir útvegsbændur og dugandi húsfreyjur, en einnig danskir kaupmenn, norskir hvalveiðimenn, amerískir lúðuveiðarar og franskir duggarar. En ekki síður verkafólk og vinnufólk, sem byggði upp nýtt þjóðfélag á síðustu hundrað árum, byggt á velferð og samhjálp. Hér í Dýrafirði átti samvinnuhreyfingin lengi mikil ítök og undir hennar merkjum varð mikil uppbygging í atvinnumálum.

Með samvinnu og samstöðu getum við náð fótfestu á ný og sótt fram til nýrra áfanga. Við þurfum bættar samgöngur með jarðgöngum á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, til að tengja saman byggðakjarna á Vestfjörðum. Við þurfum ný viðhorf í fiskveiðimálum og við þurfum að byggja nýja trú á framtíð byggðanna. Hér er gott mannlíf, hér er kraftmikið fólk, hér er lifandi samfélag, sem margir vildu verða hluti af, ef fleiri tækifæri væru sköpuð.

Það þarf ekki að nefna nema bara eitt. Dýrfirðingar settu nýlega upp leikverk byggt á sögu ungmennafélagsins Höfrungs. Margir tóku þátt í verkinu og ég var einmitt samferða ungum Þingeyringi fyrir nokkrum dögum sem sagði mér frá sýningunni með sjálfsögðu stolti og ánægju. Þetta er það sem einkennir okkar samfélag og gerir það svo verðmætt: Samstaða og stolt yfir því sem við eigum saman.

Þetta stolt yfir sögu okkar og menningu þurfum við að varðveita og efla. Höfum það í huga um leið og við bjóðum aðventuna velkomna. Hugsum til þess að þrátt fyrir alla erfiðleika í þjóðfélaginu, þrátt fyrir erfiða stöðu í byggðum okkar hér vestra, þrátt fyrir skammdegið og skuggahliðar tilverunnar, er hátíð ljóssins í nánd og sólin hækkar á ný og birtan sigrar. Sama verður í þjóðfélaginu og hér í okkar fjörðum. Með bjartsýni og trú, samstöðu og dugnaði munum við sjá betri tíð og bjartari framtíð.

Ég vil óska öllum Dýrfirðingum og öðrum Vestfirðingum gleðilegrar jólatíðar og gæfuríkrar framtíðar.

Ávarp við jólatréð á Þingeyri 26. nóvember 2011
Sigurður Pétursson, sagnfræðingur og bæjarfulltrúi.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31