A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
28.06.2009 - 11:16 | Hallgrímur Sveinsson

Hugleiðing dagsins: Allt landið og miðin

Það er vægast sagt undarlegt fyrir okkur landkrabbana, sem sumir okkar hafa aldrei migið í saltan sjó, að heyra það að nú eigi að draga úr öryggisþjónustu við sjómennina okkar. Fjárveitingar til þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar á að skerða vegna fátæktar.

Þetta eru slæmar fréttir, einhverjar þær verstu sem maður hefur heyrt lengi. Einkum og sér í lagi vegna þess að þetta er algjörlega út úr korti. Á árinu 2009 er áætlað að verja samkvæmt fjárlögum mörgum milljörðum króna í alls konar vitleysu á vegum ríkisins. Menn þurfa ekki annað en renna augum yfir þann lagabálk til að sjá það. Svo ætla menn að leyfa sér að draga úr öryggi sjómanna, sem aldrei er of mikið.

Ameríska þyrlubjörgunarsveitin á Keflavíkurflugvelli, sem bjargaði líklega hundruðum mannslífa á Íslandi og hafinu umhverfis okkur, er nú ekki lengur til að stóla á. Því miður. Það hefði átt að semja við Bandaríkjamenn um að hafa hana áfram staðsetta hér, ef mögulegt hefði verið, þó svo herinn færi að öðru leyti. Þó við hefðum þurft að greiða nokkrar krónur í rekstrarkostnaði hennar hefði það marg borgað sig fyrir okkur.

Miðað við þessar staðreyndir verðum við sjálfir að halda úti eins öflugri þyrlubjörgunarsveit og kostur er. Þar má ekkert til spara, án þess þó að vera með eitthvert bruðl. Þetta er slíkt forgangsmál að það ætti ekki að þurfa mikilla umræðna við. Og meðal annarra orða: Þyrlurnar eru ekki bara fyrir sjómennina okkar. Þær eru fyrir allt Ísland auk hafsins umhverfis það. Gleymum því ekki.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31