A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
04.06.2014 - 22:05 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Hógværar tillögur að vestan um breytingar á stjórn fiskveiða

Næst á myndinni eru Vestfirðirnir á Íslandskortinu í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Næst á myndinni eru Vestfirðirnir á Íslandskortinu í Ráðhúsi Reykjavíkur.

 

Fyrsta grein laga  nr. 116  2006 um stjórn fiskveiða hljóðar svo:

   „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

   Við undirritaðir leggjum til að þessi grein laganna komi til fullra framkvæmda fyrir næstkomandi fiskveiðiár, sem hefst 1. september 2014. Með vísan til þess, leggjum við til að frumbyggjaréttinum verði skilað aftur að hluta til sjávarbyggða á heljarþröm sem hér segir:

 

1.

Þar sem atvinnuleysi og önnur óáran hrjáir íbúa í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, skulu krókaveiðar, þ. e. línu og handfærveiðar, gefnar frjálsar frá grunnlínum og minnst 30 mílur til hafs. Kallast það frumbyggjaréttur. Sjávarútvegsráðherra, með fulltingi ríkisstjórnar, skal meta  fyrir 1. sept. árlega hvaða byggðarlög í viðkomandi kjördæmum falla undir þessa skilgreiningu. Byggðakvótar falli niður á þeim stöðum.

 

  1. 2.   

Úthluta skal í þessu skyni árlega 20,000 tonnum - tuttugu þúsund tonnum - af eftirtöldum tegundum: Þorskur, ýsa, steinbítur og ufsi. Þetta verði framtíðar veiðiheimildir áðurnefndra byggðarlaga, teknar úr sameiginlegum veiðiheimildum þjóðarinnar fyrir úthlutun til kvótahafa. Hægt verði að færa veiðiheimildir milli tímabila með tilliti til vinnslustöðva ef henta þykir.

    

3.

Sveitarstjórnir á hverju svæði sjái um og beri á því alla ábyrgð, ásamt verkalýðsfélögum á hverjum stað, undir yfirstjórn  sjávarútvegsráðherra, að tryggt sé að veiði sé eigi leyfð nema að fyrir liggi samningur um vinnslu aflans og lokasölu hans. Aflaheimildir eru ekki framseljanlegar. Þær fari aldrei út af svæðinu.  Ef menn hætta sjósókn skila þeir sínum veiðiheimildum til bæjarfélagsins, sem sér um endurúthlutun þeirra.

   Verði menn uppvísir að misferli í sambandi við þessar aflaheimildir, skulu þær innkallaðar tafarlaust.

 

           

              Greinargerð.

 

Með tillögum þessum er leitast við að benda á hvernig færa má fiskvinnslufólki og útvegsbændum aftur frumburðarrétt þeirra til að lifa af á vissum stöðum á landinu. Færa fólkinu aftur rétt sem af því var tekinn af skammsýni.  Við teljum að þetta sé vel fær leið en kostar að menn verða að meta hana af víðsýni og sanngirni. Láta ekki eiginhagsmuni glepja sér sýn. Ekki er reiknað með slíkri útfærslu í öðrum kjördæmum landsins á þessu stigi, en gæti komið til athugunar síðar. Réttur fólksins í sjávarbyggðum á heljarþröm verður að vera í fyrirrúmi.   

   Hér er verið að benda á leið til að tryggja byggðarlögin eftir því sem hægt er. Engar bráðabirðareddingar. Sjávarbyggðirnar þurfa að endurheimta réttinn til að nýta auðlindir sínar. Að skila frumbyggjaréttinum að hluta er góð byrjun. Frumkvæðið í úrvinnslu á málinu verði öll heimafyrir. Stjórnvöld þurfa aðeins að viðurkenna rétt fólksins.

   Eru þetta ekki sértækar aðgerðir? Vissulega. Vandi margra sjávarbyggða verður ekki leystur til frambúðar nema með sértækum aðgerðum. Smáskammtalækningar á borð við byggðakvóta leysa engan vanda segir framkvæmdastjóri L. Í . Ú. Við erum því algjörlega sammála.

   Uppræta þarf svindl og ýmis mistök í kvótakerfinu. Dæmi:

Kröfurnar um að allur fiskur fari á markað hafa leitt til þess að fiskurinn er boðinn upp á svokölluðum Fiskmarkaði Suðurnesja á Ísafirði, settur þaðan upp í flutningabifreið og síðan  er honum ekið til suðvesturhorns landsins og þar er hann hanteraður á ýmsan hátt. Þess eru jafnvel dæmi að byggðakvóti sé settur á markað. Fiskvinnslustöðvarnar  í næsta nágrenni fiskimiðanna hafa annaðhvort ekki vilja eða getu, nema hvortveggja sé, til þess að eignast þennan fisk og vinna. Lýsa yfir vinnustöðvun vegna hráefnisskorts og starfslið þeirra er þar með komið á atvinnuleysisbætur. Ekki getum við fullyrt neitt um hvaðan þær bætur koma, en ekki kæmi á óvart að þær komi úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

 

 

   Framangreindar hugmyndir byggja að nokkru leyti á tillögum þeirra Steingríms Hermannssonar og Baldurs Jónssonar frá 1983. Þær eru settar fram til að skapa málefnalegar umræður.

 

                                                 Þingeyri á Sjómannadaginn 1. júní 2014

                                            Hallgrímur Sveinsson    Bjarni Georg Einarsson

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31