Hinn óttalegi leyndardómur
Á heimasíðunni forseti.is eru allir fundir og dagskrár forsetans 10 ár aftur í tímann. Þar er hægt að fylgjast með öllum ferðum hans og hverja hann er að hitta innan lands og utan. Þjóðin veitir forsetanum aðhald. Við þurfum algjört gegnsæi, meiri gagnrýni og opnari hugsun.
Eitthvað á þessa leið mæltist forseta vorum í sjónvarpinu um daginn, og víðar þessa dagana, og er vel að orði komist. „Þetta er prýðilegt, góði", eins og síra Baldur mundi segja. En svo koma spurningar eins og hvað þetta brambolt allt kosti landsins kassa. Þó leitað sé logandi ljósi á umræddri forsetasíðu, slegið inn orðum eins og rekstrarkostnaður, kostnaður við forsetaembættið og svo framvegis, verður fátt um svör.
Í okkar stjórnsýslu er til eitthvað sem heitir fjárlög og fjáraukalög og svo ríkisreikningur sem birtur er eftir dúk og disk. En að leggja það strax á borðið hvað menn eru að borga úr ríkiskassanum frá mánuði til mánaðar dettur engum óvitlausum manni í hug að gera.
Við þurfum að sjálfsögðu „algjört gegnsæi, gagnrýni og opnari hugsun". En hvernig menn fara með opinbera fjármuni, það er allt annar handleggur! Top secret, eins og strákarnir segja. Ungur blaðamaður á Mogganum, Andri Karl, vekur athygli á því að nú séu opinberir aðilar farnir að birta fundargerðir stjórna ýmissa stofnana. Það er líka prýðilegt svo langt sem það nær. En þegar fjármunir eru annars vegar fara menn þó enn eins og kettir í kringum heitan graut.
Fjármálaráðherra tók svo til orða í fyrra, að ekki væru öll kurl komin til grafar, og synti milli skers og báru þegar að honum var sótt úr öllum áttum að gefa upp kostnað við nefnd nokkra sem hafði skilað af sér fjórum mánuðum áður. Hvað svona launung á að þýða skilur ekki nokkur venjulegur maður.
Fyrir nokkru kom tillaga héðan að vestan til ríkisstjórnarinnar, að hún fyrirskipi öllum, þar með talin ráðuneyti, að birta á vefsíðum sínum einu sinni í mánuði alla kostnaðarreikninga sem þeir hafa stofnað til mánuðinn á undan. Og hverjir það eru sem fá þær greiðslur. Og ekkert undan dregið.
Með þessu móti, sem mætti kalla sjálfbæra endurskoðun, getur alþýða manna og alþingismenn fylgst með jafnóðum og hlutirnir gerast. Ekkert röfl eða vesen á Alþingi um keisarans skegg. Þá ættu þingmenn ekki að þurfa að vera að jagast í ráðherrum dögum og vikum saman um hvað gert hafi verið við þessar og þessar krónur. Sjálftaka mundi líklega minnka eða jafnvel hverfa alveg.
Þá fyrst, en ekki fyrr, getum við farið að tala um algjört gegnsæi. Það er nefnilega ekkert eftirlit eins gott og þegar almenningur lætur sig málin varða. En auðvitað hlustar ekki nokkur maður á svona vitlausar tillögur. Skárra væri það nú. Slík ríkisleyndarmál mega bara alls ekki liggja á glámbekk. Það varðar þjóðaröryggi!
Fyrirsögn þessarar greinar hljómar eins og nafn á nýju ævintýri Basil fursta. Kannski við þurfum einmitt einhvern Basil til að lyfta hulunni af þeirri leyndarhyggju sem okkar litla og sundurþykka þjóð glímir við, þar á meðal svokallaðri bankaleynd. En þar fór nú í verra, því það er sá Heljarslóðarvettvangur sem alls ekki má hrófla við, hvað sem tautar og raular. Margir góðir menn hafa þó bent á þá staðreynd, að hin heilaga bankaleynd sé sá Akkilesarhæll sem hvílir á okkur og reyndar flestöllum þjóðum heims eins og mara. Þar vaða menn um á skítugum skónum í krafti einhverrar ofurleyndar. Þetta eru hinir heilögu menn nútímans. Hinir ósnertanlegu.
Er ekki kominn tími til að fara að breyta þessu, lesendur góðir, og hefja einhverja aðra verðugri til skýjanna?
Hallgrímur Sveinsson