A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
22.04.2016 - 11:47 | Séra Gunnar Björnsson

Halda skaltu hvíldardaginn heilagan

Séra Gunnar Björnsson.
Séra Gunnar Björnsson.
Stjórn Prestafélags Íslands hefur goldið því jáyrði sitt, að helgidagalöggjöfin verði úr gildi numin.

„Halda skaltu hvíldardaginn heilagan,“ segir í þriðja boðorðinu. Og víst er um það, að við höfum varla meiri þörf á neinu, á okkar dögum, en þessum vikulega frídegi, hvíldardeginum – að ógleymdum hátíðisdögum kirkjuársins. Líf okkar má heita ein óslitin, örvita hreyfing, og ærandi hávaði, sem aldrei er rofinn. Verksmiðjur eru víða starfræktar með þremur vöktum, bæði nótt sem nýtan dag. Stórverslanir eru opnar alla sjö daga vikunnar. Myndirnar á sjónvarpsskjánum þjóta hjá með auknum hraða, ár frá ári, um leið og þol áhorfenda til að meðtaka boðskapinn verður æ minna. Músíkin er eingöngu helber froðuvæðing, þar sem mest ber á drynjandi rafmagnsbassa.

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða! Hið virðulega göngulag tímans, hinn þungi niður hans breytist í vitstola hamagang og glundroða. Allt snýst um það að komast yfir fleira og fleira og gera það hraðar og hraðar. Nýju, spræku tölvunni, sem keypt var í fyrra, er komið fyrir í geymslu eða fleygt, og ný keypt, enn þá miklu hraðvirkari. Næturlíf stórborga, þar sem aldrei er spurt, hvað klukkan sé, – það brjálaða líf er andstæðan við hvíldardaginn; það er tryllt æði, sem stendur yfir með ærandi hávaða og blikkandi neón-ljósum í 24 tíma á sólarhring, 365 daga ársins. Það má kaupa morgunverð um kaffileytið síðdegis, og það er hægt að panta sér fimmréttaða hátíðarmáltíð um níuleytið á morgnana, pekingönd klukkan þrjú að nóttu. Þetta er hin heimskulega fyrirmynd okkar, sem gætum átt svo unaðslegt líf, í kyrrð, í dýrð í faðmi fjalla blárra. En manneskjan geldur þennan vaðal dýru verði. Það finna æ fleiri. Alls konar hugleiðsla hefur aldrei notið meiri vinsælda en nú. Aldrei hafa fleiri viljað reyna austurlenska bænagjörð. Aldrei hafa menn einbeitt sér eins að því að telja, hvað þeir anda oft að sér á mínútu. Aldrei hefur það verið útbreiddara, að fólk sitji hreyfingarlaust og stari á vegginn andspænis sér. Ástæðan er sú, að fólk vill slaka á taugaspennu. Biðlistar ferðamanna, sem vilja fara til þess helga pílagrímastaðar, Lourdes í Frakklandi, hafa aldrei verið lengri en núna. Kannanir sýna, að fæst af þessu fólki sækir kirkju heima hjá sér. Og það er ekki á höttunum eftir lækningu meina sinna. Nei, það vill einfaldlega losna við spennuna og streituna, sem nútímalífi fylgir; það vill komast hjá því að þurfa að opna tölvuna og sjá orðsendinguna: Það eru skilaboð til þín!

Af öllum boðorðunum tíu, er það trúlega þetta þriðja, „halda skaltu hvíldardaginn heilagan“, sem við þurfum allramest á að halda.

Séra Gunnar Björnsson.

Höfundur er pastor emeritus.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31