A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
28.05.2015 - 21:16 | Aðsendar greinar - Afmælisrit Dýrfirðingafélagsins 2011 - Elfar Logi Hannesson

Gíslastaðir í Haukadal

Elfar Logi Hannesson.
Elfar Logi Hannesson.
« 1 af 2 »

Elfar Logi Hannesson frá Bíldudal

Haukadalur í Dýrafirði er mikil paradís á jörðu, sögustaður mikill. Þar tók kappinn Gísli Súrsson land enda var hann smekkmaður góður.

Í Haukadal var á árum áður fjölmenni talsvert því árið 1936 reistu Haukdælingar sérstakt samkomuhús sem stendur í hjarta Haukadals. Þar hafa verið haldnar miklar samkomur í gegnum árin og ávallt kátt í koti.

Eigendur samkomuhússins í dag eru Marsibil G. Kristjánsdóttir frá Þingeyri og Elfar Logi Hannesson frá Bíldudal og nefna þau húsið Gíslastaði eftir fornmanninum. Þau hafa fyllt húsið af lífi að nýju og þar fer fram fjölbreytt list og almenn skemmtan.

Í júlímánuði árlega er Einstök sýning á Gíslastöðum þar sem einstakri myndlist og leiklist er gerð skil.


Í myndlistinni eru í aðalhlutverki svonefndir einfarar í íslenskri myndlist og þar fara fremst í flokki listahjónin á Hofi í Dýrafirði, þau Gunnar Guðmundsson og Guðmunda Jóna Jónsdóttir, amma og afi Marsibilar.

Listahjónin í Haukadal, þau Marsibil og Elfar, hafa markvisst verið að safna verkum listahjónanna á Hofi og hafa marga tugi verka þeirra til sýnis árlega á Gíslastöðum. Einnig eru ávallt sýnd verk eftir aðra einfara í myndlist. Auk þess er sögusýning uppi um einleiki á Íslandi en húsbóndinn á Gíslastöðum hefur farið mikinn í einleikjalistinni síðasta áratug.

Verk hans Gísli Súrsson, sem er án efa vinsælasta leikrit Vestfjarða, er einmitt sýnt á söguslóðum í Haukadal og geta hópar pantað sýninguna sérstaklega.

Að lokum má geta þess að fyrir nokkrum árum var hið einstaka jólaball í Haukadal endurvakið og er nú haldið milli jóla og nýárs á Gíslastöðum og að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Ævintýrin gerast enn í Haukadal og eins og við vitum þá getur allt gerst í ævintýrunum.

Fylgist því vel með.

Elfar Logi Hannesson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31