Fráfarandi formaður orðinn frekar lélegur í klettum
Aðalfundur Breiðhillufélagsins í Auðkúluhreppi var haldinn á veginum fyrir ofan Ketilseyri í Dýrafirði í fyrri viku. Höfðu fundarmenn Dýrafjarðargöng í baksýn.
Það kom fram á fundinum, að formaður félagsins, Grímur gamli á Eyrinni, er orðinn svona frekar lélegur í klettum á allra síðustu misserum. Auk þess hundlaus. Sagðist hann því verða að stóla meira upp á yngri menn en verið hefur. Töldu fundarmenn að þetta ætti ekki að koma að mikilli sök, því Hákon Sturla Unnsteinsson, búaliði á Ketilseyri, er vaxandi maður á öllum sviðum þar á meðal í klettum og slíku. Svo er hann með þennan fína smalahund sér við hlið. Ber hann nafnið Lækur, enda ættaður frá Brjánslæk.
Nú, nú. Samþykkt var að beina þeim eindregnu tilmælum til Miðbæjarbræðra, Kristjáns og Sigurðar Þórarins hreppstjóra, að þeir gefi kost á sér í fyrirstöðu þegar farið verður í Breiðhilluna. Því inneftir mega þær ekki fara. Verður það væntanlega 3. laugardag í nóvember. Reiknað er með að Miðbæjarkallinn verði þá í Þorbjarnardalskjaftinum með víðu útsýni og gefi þaðan ordrur en Siggi Þói hreppstjóri þar fyrir neðan og á veginum, þó án hreppstjóravalds, því hreppstjóri Auðkúluhrepps gefur það ekkert eftir. Ómar Dýri yfirlautinant verður á þjónustubifreið Auðkúluhrepps og gefur mönnum rapport í talstöðinni. Auðvitað verða allir með talstöðvar. En talandi um þjónustubifreið. Ekki vitum við til að nokkur annar hreppur hér um slóðir haldi úti slíkri þjónustu og er það nokkuð sem þeir þurfa að huga að.
Arna og gimbrin dóttir hennar og veturgömlu gimbrarnar tvær lækkuðu sig um daginn, en nú eru þær víst komnar aftur upp í Breiðhillu, enda viðbúið í góðviðrinu undanfarið. Svo er alveg til í dæminu að fleiri ær séu þar uppi með lömbum, í Karlsstaðagilinu eða eitthvað.
Ekki er reiknað með að útbýtt verði Viagra karamellum að þessu sinni, þar sem þær eru eiginlega hættar að flytjast. Allavega þær sem eitthvert bragð er að.
Jæja. Ketilseyrarkallinn taldi að þegar Arna þarf að komast í námunda við hrút muni hún lækka sig. En það er náttúrlega alveg óvíst því það geta alveg eins verið hrútar þarna uppi þessvegna. En það verður bara að koma í ljós.
Ýmislegt fleira var tekið fyrir á fundinum þó þess sé ekki getið hér. Frá því verður þó að segja, að Grímur á Eyrinni var útnefndur ævilangur heiðursforseti félagsins með öllum greiddum atkvæðum. Konni á Ketilseyri var útnefndur nýr formaður Breiðhillufélagsins og var hann samþykktur með ferföldu húrrahrópi.
Það skal tekið fram, að þótt hér sé nokkuð fært í stílinn, er ýmislegt alveg pottþétt í málinu!