A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
16.10.2009 - 11:04 | Hallgrímur Sveinsson

Er ekki komið nóg?

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Jafnvel þó hin fleygu orð Friðriks mikla, að því betur sem hann kynntist mönnunum, þess vænna þætti honum um hundinn sinn, séu sígild, þá finnst mörgum að í bili sé komið nóg af hrunfréttum og umfjöllun um stórgáfuð fífl. Við getum okkur að meinalausu sleppt frekari kynningu á þessum blessuðu mönnum. Endalaus dans í fjölmiðlum kringum hruninn gullkálf er beinlínis mannskemmandi. Við þurfum ekki meira í bili. Réttvísin á næsta leik. En þetta hefur verið góður hundur hjá kallinum.

Ein eldri frú hér fyrir vestan sagði við mig um daginn:
“Við Íslendingar eigum ekki að venja okkur á þetta sífellda væl. Við höfum allt til alls. Við eigum nóg af húsum. Við þurfum ekki að byggja meira í bili. Við eigum nóg af fötum. Við eigum nóg af bílum. Við eigum nóg af drasli. Þó við sendum heilu skipsfarmana af dóti út í heim til þeirra sem ekkert eiga, sæi ekki högg á vatni hjá okkur. Og við eigum nóg af mat. Við þurfum ekki betri lífskjör. Verkalýðsforkólfar og stjórnmálamenn eru sífellt að tönnlast á að við þurfum að bæta lífskjörin. Þeir gá ekki að því að hér eru bestu lífskjör í heimi. Hitt er allt annað að við þurfum að jafna lífskjörin. Hætta að henda mat í stórum stíl. Okkar mesta skömm er að einhver skuli vera svangur mitt í öllum allsnægtunum. Það á enginn að þurfa að líða skort í okkar góða landi. Við eigum að hjálpa hvert öðru. Oft var þörf en nú er nauðsyn.”
Eitthvað í þessa átt hljóðaði ræða hinnar vestfirsku valkyrju og er á við marga milljarða í krónum talið ef eftir þeim væri farið. Ef forsvarsmenn okkar hafa vit á að standa saman og ganga á undan með góðu fordæmi mun þjóðin fylgja þeim. Við þurfum breytt hugarfar. Og hætta bruðlinu! Sú þjóð sem ætlar að gleypa allt sem tönn á festir fær ekki staðist og glatar sálu sinni.
Og rétt í þessu birtist stórkostleg frétt á mbl.is. Söngvarinn Stefán Helgi Stefánsson hefur heimsótt Alzheimersjúklingana í Fríðuhúsi undanfarið og sungið fyrir þá. Bóksaflega hrífandi að sjá viðbrögðin. Það er nákvæmlega þetta sem við Íslendingar eigum að gera mitt í öllu volæðinu. Gefa eitthvað af okkur sjálfum. Ekki vera sífellt að hugsa um einhverja neyslu og skemmta okkur persónulega. Hugsa um náungann. Þá mun allt annað veitast okkur að auki.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31