Eigum við að trúa þessu?
Það eru ómældir möguleikar um samstarf byggðarlaga sem árssamgöngur á milli svæðanna á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum munu skapa. Hér er um að ræða atvinnumál , menningarmál, menntamál, ferðamál og flest sem lýtur að samskiptum fólks. Það ber í því sambandi að hafa hugfast að þetta veitir íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum tækifæri til að stofna til þjónustu sem hefur aukna möguleika á stærri markaði. Ég þekki vel til á sunnanverðum Vestfjörðum og veit að þar býr harðduglegt fólk sem við hér á norðursvæðinu eigum svo sannarlega samleið með. Vonandi eru allir þéttbýlisstaðirnir þrír þar að eygja nýja og betri tíma.
Ég veit ekki hvað hæstvirtum samgönguráðherra gengur til með þessu tali sínu sem hann ber ónefnda huldumenn fyrir. Ég lít málið hins vegar það alvarlegum augum að mér finnst ummæli hans kalla á aðrir, sem eiga að hafa forystu í samgöngumálum kjördæmisins, bregðist við. Ég vil því skora á fyrsta þingmann Norðvesturkjördæmis Sturlu Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra að kalla þingmenn kjördæmisins saman og fá fram skoðun þeirra um hvort þeir styðji þá hugmynd að raska þeirri áætlun sem núverandi forseti Alþingis kynnti sjálfur hér vestra.
Ólafur Bjarni Halldórsson.