A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
08.07.2015 - 18:21 | Bjarni Georg Einarsson

„Ég sendi þér miða með timbrinu“

Bjarni Georg Einarsson.
Bjarni Georg Einarsson.
« 1 af 2 »
Undirritaður las grein í blaðinu Vestfirðingi fyrir stuttu sem nefnist Bolvíkingar eiga þetta fyrirtæki; Þeir hafa unnið fyrir því. Hún verkaði sterkt á mig og upp rifjuðust kynni mín af þeim heiðursmanni Einari Guðfinnssyni.

Þannig var að ég hafði ráðist í að byggja mér hús á Þingeyri og hafði tryggt mér til þess timbur og járn  hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga svo ég gæti útibyrgt húsið fyrir vetur. Þá tók drottinn í taumana og lét heyhlöðu fjúka út á sveit og timbur og járn voru tekin traustataki. Hlaðan endurbyggð og stórtjóni afstýrt hjá þeim bónda. Þegar náttúruöflin eiga í hlut þá verða mennirnir smáir og vanmegna.

   Lítill fugl hvíslaði því að mér að  ef til vill væri reynandi að hafa samband við Einar Guðfinnsson í Bolungavík. Það gerði ég og niðurstaðan sú að nóg væri til af timbrinu og það gæti ég fengið með Særúnu sem færi frá Bolungavík síðari hluta dagsins. Hún þyrfti að taka nokkrar lýsistunnur á Þingeyri. Ég gekk frá timburmagninu og spurði hvernig við ættum að ganga frá greiðslum. Ég sendi þér miða með timbrinu og svo hugsum við ekki meira um það í kvöld. Í bili er ekki til neitt þakjárn en er væntanlegt eftir áramótin.

    Áramótin liðu og með nýu ári fyllast menn bjartsýni og ég ræddi þetta mál við Þórð heitinn Sigmundsson. Hann taldi að verslun Sigmundar Jónssonar ætti ónotað innflutningsleyfi fyrir þakjárni hjá J. Þorláksson & Norðmann. Hann bauðst til að athuga þetta og tilfellið var að þetta reyndist rétt hjá honum. Járnið kom með næstu ferð Særúnar frá Reykjavík á vegum Einars Guðfinnssonar og komst á þakið og flesta veggi fyrir Góulok.          

Svona var Einar Guðfinnsson. Hann treysti mönnum þangað til hann reyndi annað. 

 

Bjarni Georg Einarsson. 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31