A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
25.06.2015 - 08:32 | Afmælisrit Dýrfirðingafélagsins 2011 - Erna Höskuldsdóttir

Dýrafjarðardagar, þorpsstemning fyrir alla fjölskylduna

Erna Höskuldsdóttir.
Erna Höskuldsdóttir.
« 1 af 3 »

Erna Höskuldsdóttir grunnskólakennari, Höskuldar Brynjars Gunnarssonar frá Miðbæ í Haukadal og Þorgerðar Gunnlaugsdóttur, Gulla Magg og Kristínar, frá Neðri-Hjarðardal.

 

Dýrafjarðardagar eru haldnir fyrstu helgina í júlí ár hvert. Hátíðin hefur verið haldin í 10 ár samfellt þar sem kraftur og samstaða íbúanna sameinast í því að útbúa skemmtidagskrá fyrir íbúa og gesti staðarins.

Íbúar, félagasamtök, veitingamenn og listafólk krydda menningarlíf þorpsins og glæða það lífi. Oft hefur verið talað um hinn óskiljanlega mátt og kraft fjallanna hér í firðinum en hann er ef til vill drifkraftur þeirra sem leggja hátíðinni lið til að gera dagskrána þar eftirminnilega og skemmtilega.

 

Ýmsir fastir liðir hafa einkennt hátíðina þessi 10 ár. Vert er að koma því á framfæri að hátíðin var haldin sem eins konar markaðsdagar fyrir þann tíma en það var hugmynd Bergþóru Annasdóttur að hrinda henni í framkvæmd. Þessir föstu liðir bera nokkurn keim af þeirri hugmynd en markaðstjald þar sem íbúar og gestir fá tækifæri til að kynna list, vöru eða annan varning er einn þessara föstu liða.

 

Listamenn ættaðir úr Dýrafirði hafa einnig verið duglegir að leggja hátíðinni lið og boðið til listsýninga, tónleika og fleira. Sífellt fleiri gestir sækja gönguferð um söguslóðir Gísla Súrssonar í Haukadal og ekki er amalegt að gæða sér á gómsætum rabarbaragraut með rjóma eftir gönguferð og fróðleik um landnámsmenn og kappa.

Aðra fasta liði má nefna eins og leikrit, strandblaksmót, kajakferðir, bátsferðir með björgunarsveitinni, siglingar á víkingaskipinu Vésteini, víkinga, hestaferðir, hoppkastala og kassabílarall.

Árið 2002 kom upp sú hugmynd að halda grillveislu niðri á odda þar sem fjörustemning með varðeldi og heilgrilluðum lambaskrokki varð að veruleika og er kannski kveikjan að stórskemmtilegu útivistarsvæði sem víkingar á Vestfjörðum sáu um að byggja.

Á víkingasvæðinu er haldin grillveisla og kvöldvaka fyrir hátíðargesti þar sem boðið er upp á góðan mat og skemmtun fyrir alla fjölskylduna að hætti Dýrafjarðardaga hverju sinni. Einnig er vert að minnast á stórdansleik í Félagsheimilinu þar sem fólk á öllum aldri gleðst og dansar saman fram á nótt. Ekki er orðum aukið að tala um stórdansleik en ótrúleg stemning hefur myndast á þessum dansleikjum í gamla góða samkomuhúsinu þar sem vinir og frændur hittast og kynnast.

 

Eins og fram hefur komið er kraftur íbúanna ómetanlegur í þessu öllu saman. Sífellt fleiri hafa sótt hátíðina og gestir verið um þúsund manns núna síðustu tvö ár, sem er meira en þreföld íbúatala staðarins. Ég vil að lokum nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem hafa lagt hátíðinni lið með uppákomum eða öðrum styrk. Án þeirra væri þetta ekki hægt.

Erna Höskuldsdóttir

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31