A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
22.07.2010 - 13:22 | Hallgrímur Sveinsson

Dýrafjarðardagar slá í gegn!

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Sá góðkunni útvarpsmaður, Jónas Jónasson, segir svo í bók sinni Lífsháskinn: "Fólkið í Reykjavík virðist oft ekki vita af því að austan Elliðaánna er líka til fólk sem býr yfir geysimiklum hæfileikum, frásagnarkúnst og lífsgleði. Fólkið í sveitum Íslands kann að skemmta sér, flytja menningu sína, leiklist og söng, og okkur kemur það öllum við. Ég hef stundum verið ásakaður um að vera sveitalegur í þáttagerð minni og ég tek því sem kærkomnu hrósi." (Svanhildur Konráðsdóttir, Forlagið Rvk. 1991). 

Þessi orð hins aldna en þó síunga útvarpshauks sönnuðust áþreifanlega á nýliðnum Dýrafjarðardögum á Þingeyri. Fólkið í Dýrafirði, sem og á Vestfjörðum almennt, býr svo sannarlega yfir miklum hæfileikum og lífsgleði sem hittir marga í hjartastað sem því kynnast. Undirritaður hafði tal af fjölmörgum þeirra, ekki síst Reykvíkingum, sem sóttu Dýrafjörð heim á umræddri hátíð. Fólkið undraðist allar þær listsýningar, sögulegar sýningar í myndum og máli og söng- og leiklist, svo nokkuð sé nefnt, sem heimafólk galdraði fram án þess að blikka auga. Ekki má svo gleyma að nefna hýbýlaprýðina, utan húss sem innan, sem býður ókunnuga sjálfkrafa velkomna í Dýrafjörð. Trjá-og blómskrúðið er ótrúlega fjölbreytt á svo norðlægum slóðum, en það á rætur allt til Skrúðs séra Sigtryggs á Núpi. Margir höfðu orð á því að yfir þessu öllu hjá Dýrfirðingunum svifi svo sérstakur og hlýlegur andi sem auðvelt væri að finna og falla fyrir. En Dýrafjarðardagar, sem og aðrar slíkar menningarhátíðir hvarvetna um landið, stökkva ekki sjálfskapaðar út úr höfði einhverra menningarvita. Hér er það alþýðan sjálf sem stendur að verki.

  
Til skamms tíma var til staðar svo til óbrúanleg gjá á ýmsum sviðum milli höfuðborgarbúa og sveitavargsins sem svo hefur verið kallaður. En nú eru uppi vísbendingar um að þetta sé eitthvað að breytast. Vargurinn fyrir sunnan er að átta sig á því hvar rætur hans liggja, en því voru sumir búnir að gleyma, en það er nauðsynlegt hverjum manni að muna.


Meðal annarra orða. Var það ekki Gísli Guðmundsson, alþingismaður, sem fann upp hugtakið Jafnvægi í byggð landsins? Þó þessi hugmynd hans hafi verið nokkuð útþvæld á sínum tíma, er kominn tími til að rifja hana upp aftur og það sem á bak við hana stendur. Fyrir sunnan er til dæmis gífurlega mikil menning, jafnvel á svo háu plani að meira að segja útlendingar undrast! Og sveitafólk fer oft í heilum fylkingum suður á bóginn til að njóta hennar. En menningin er víðar. Hún er eiginlega til staðar í hverju krummaskuði á Íslandi ef að er gáð. Það er gleðilegt að íbúar höfuðborgarsvæðisins skuli vera að uppgötva þá staðreynd, því löngu er tímabært að koma jafnvægi á menninguna í byggð landsins. Þá mun annað jafnvægi fylgja á eftir.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31