A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
26.05.2011 - 00:37 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Björgunarsjóður Jóns Sigurðssonar

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
« 1 af 2 »
Sumir vegfarendur þykjast sjá tár á hvarmi styttu Jóns Sigurðssonar þegar þeir eiga leið um Austurvöll þessa dagana. Getur það verið? Ja, því ekki það, alla vega í óeiginlegri merkingu. En hvers vegna ætti sómi Íslands að gráta?

Hann grætur af því að það er viðurkennd staðreynd að sum okkar þurfa að betla til að eiga fyrir nauðsynjum.
Hann grætur af því við Íslendingar erum svo miklir aumingjar að við virðumst ekki skilja þetta og viljum ekki breyta þessu. Hann grætur af því að þeir sem hafa meira en nóg eru alltaf að heimta meira og meira. Þetta lið vill ekki gefa tommu eftir. Þess vegna grefur það sína eigin gröf. Ef rússneski aðallinn hefði þekkt sinn vitjunartíma og gefið svolítið eftir handa þeim sem sveltu, hefði byltingin í Rússlandi aldrei orðið.
Hann grætur af því við Íslendingar, þjóðin hans, hendum mat alveg blygðunarlaust. Sennilega er ekki ofreiknað að einn þriðji af öllum matvælum sem við kaupum lendi í ruslatunnunni. Ætlumst við virkilega til að þeir sem eru bjargarlausir sæki sér næringu þangað?

Mörg okkar sem komin erum til vits og ára eins og sagt er, vissum hvað það var að hafa ekki alltaf nóg að borða. Við segjum: Hingað og ekki lengra. Nú er komið nóg. Styrmir Gunnarsson skrifar í Sunnudagsmoggann: "En það er því miður raunveruleiki að of margir Íslendingar eiga ekki fyrir mat og afleiðingar fátæktarinnar koma fram með ýmsum hætti og alveg sérstaklega koma þær niður á börnum. Börnum sem munu aldrei gleyma þeirri lífsreynslu svo lengi sem þau lifa og mun fylgja þeim alla tíð."  Sagt var um þau hjón, Jón forseta og Ingibjörgu, að allir Íslendingar væru börn þeirra. Háttalag okkar barna þeirra í dag, í miðjum allsnægtum, er okkur sem nóg höfum handa á milli, til háborinnar skammar og mun sú skömm fylgja okkur meðan landið er byggt. Nema við breytum til.

Frá því er að segja, að hagnaður nýja Landsbankans hf árið 2009 var 14,3 milljarðar króna, árið 2010 27,2 milljarðar króna, samtals 41,5 milljarðar króna. 

Nú er það okkar tillaga héðan að vestan til ráðamanna, að stofnaður verði Björgunarsjóður Jóns Sigurðssonar á þessu afmælisári hans. Stofnfé sjóðsins skal vera fimm milljarðar króna og skal taka þá fjármuni af hagnaði Landsbankans. Tilgangur sjóðsins skal vera sá að uppræta hungur á Íslandi og að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og skal það vera höfuðmarkmiðið. Skipa skal vinnuhóp hinna bestu manna sem sjái um þetta verk af hugsjón og í sjálfboðavinnu. Það verklag hefur áður gefist vel í Íslandssögunni. Opinberir starfsmenn aðrir en Ríkisendurskoðun, ættu ekki að þurfa að koma við sögu. Hópurinn semur sjálfur vinnureglur sínar. Óhjákvæmilegur kostnaður við þetta björgunarstarf greiðist af sjóðnum og gerir stjórn hans íslensku þjóðinni grein fyrir störfum sínum með skýrslu til hennar.

Svo mörg eru þau orð. Það skemmtilega er að það mun ekki sjá högg á vatni hjá hinum nýja Landsbanka þrátt fyrir slíkar aðgerðir. Þar eru nógir peningar sem eru í eigu íslensku þjóðarinnar. Hugsi nú hver sitt um afmæli Jóns Sigurðssonar, Þjóðbankann og fátækt á Íslandi.
Hallgrímur Sveinsson Brekku
Bjarni Georg Einarsson Þingeyri
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31